Yfirlýsing frá Einhverfusamtökunum vegna orða Jakobs Frímanns Magnússonar á Bylgjunni:

Vegna orða Jakobs Frímanns Magnússonar í útvarpsþætti á Bylgjunni í gær vilja Einhverfusamtökin koma því á framfæri að engin greining er til sem heitir bráðaeinhverfa.  Umfjöllun Jakobs Frímanns var öll hin furðulegasta og ekki byggð á staðfestum rannsóknum.  Einhverfa stafar ekki af „menguðu sæði og menguðum eggjum“. Einhverfa  stafar af öðruvísi taugaþroska. Orsakir einhverfu eru ekki þekktar en rannsóknir benda til þess að um sé að ræða samspil erfða og umhverfis þar sem erfðaþátturinn ræður mestu.  Furðum við okkur á því að þáttastjórnendur skuli ekki hafa brugðist við orðum Jakobs Frímanns á einhvern hátt.  Vanþekking viðkomandi á einhverfu er sennileg skýring. 

Óvarleg umfjöllun og rangar fullyrðingar geta aukið á fordóma og valdið vanlíðan hjá fólki á einhverfurófi og aðstandendum þeirra.

Viljum við hvetja alla aðila til að afla sér þekkingar um einhverfu. Á vefsíðu Einhverfusamtakanna er ýmsan fróðleik að finna www.einhverfa.is og í Bíó Paradís er verið að sýna nýja íslenska heimildarmynd um konur á einhverfurófi, myndina „Að sjá hið ósýnilega“.

Virðingarfyllst,

Olgeir Jón Þórisson formaður stjórnar Einhverfusamtakanna

Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna