Félög

Hér eru upplýsingar um ýmis félög og hópa sem koma að málefnum einhverfra.


Specialisterne
Markmið Specialisterne á Íslandi er að meta og þjálfa einstaklinga á einhverfurófinu og veita þeim tækifæri til atvinnuþátttöku við ýmis störf eins og hugbúnaðarprófanir, skráningarstörf og önnur fjölbreytt störf þar sem styrkleikar þeirra nýtast.

Einhverfuráðgjöfin ÁS
Einhverfuráðgjöfin ÁS er sérkennslufræðileg ráðgjafarþjónusta. Boðið er upp á ráðgjöf til skóla, stofnana og einstaklinga vegna fólks með einhverfu, Aspergersheilkennið og skyldar fatlanir. Þá er boðið upp á námskeið, fyrirlestra og ákveðna kennslufræðilega greiningarvinna.

Krossgatan - sálfræðiráðgjöf
Krossgatan - sálfræðiráðgjöf er ráðgjöf og sálfræðiþjónusta fyrir fólk á einhverfurófi og foreldra barna á einhverfurófi. Einnig er í boði fræðsla um einhverfurófið fyrir aðra. Áherslan er á stuðning og leiðir til að eiga við vandamál sem koma fram í samspili einhverfu og umhverfis.

TMF Tölvumiðstöð
TMF Tölvumiðstöð er sjálfstæð stofnun þar sem boðið er upp á ráðgjöf, fræðslu og námskeið á sviði upplýsingatækni. Þau sem leita til TMF eru m.a. einstaklingar sem þurfa stuðning, foreldrar, og starfsfólk skóla og stofnana.

Sjónarhóll
Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir. Þar er veitt foreldramiðuð ráðgjafarþjónustu þar sem þarfir fjölskyldna eru í brennidepli. Áhersla er lögð á að þjónustan sé aðgengileg og er ráðgjöf og stuðningur á vegum Sjónarhóls veitt endurgjaldslaust. 

Systkinasmiðjan
Markmið smiðjunnar er að veita systkinum barna með sérþarfir tækifæri til að hitta önnur systkini í skipulögðu og skemmtilegu umhverfi, að veita börnunum tækifæri til að ræða við jafnaldra sína á jákvæðan hátt um margt sem tengist því að eiga systkini með sérþarfir. Það sem skiptir meginmáli er að hvert og eitt barn fái að njóta sín sem best og tjái sig á þann hátt sem því hentar best.

Vinun - Ráðgjafar- og þjónustumiðstöð
Vinun býður persónumiðaða heimaþjónustu sem tekur mið af einstaklingnum sjálfum og þörfum hans.
Þörf er á auknu vali um þjónustu í íslensku samfélagi og Vinun er svar við þeirri þörf. Reynslan sýnir okkur að fólk kann að meta þau lífsgæði sem aukast þegar heimaþjónusta Vinunar er fyrir hendi.

 
Landssamtökin Þroskahjálp
Landssamtökin Þroskahjálp voru stofnuð haustið 1976 í því skyni að sameina þau félög sem vinna að málefnum fatlaðra, með það að markmiði að tryggja þeim fullt jafnrétti á við aðra borgara.
Aðildarfélög Þroskahjálpar eru 22 talsins og samanstanda þau aðallega af foreldra- og styrktarfélögum, svo og fagfélögum fólks sem hefur sérhæft sig í þjálfun og þjónustu við fatlað fólk. Félögin eru starfrækt um land allt og eru félagsmenn þeirra sex þúsund.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ)
Hlutverk ÖBÍ er:
  • að vinna að samfélagslegu réttlæti og bættum lífsgæðum og kjörum óháð líkamlegu eða andlegu atgervi einstaklinga,
  • að vera stefnumótandi í réttindamálum fatlaðra, málsvari og frumkvöðull í málefnum þeirra,
  • að vera þekkingarmiðstöð um málefni fatlaðra, og ráðgjafi og stoð aðildarfélaganna.

Einhugur, félag einhverfra og aðstandenda þeirra í Vestmannaeyjum
Markmið félagsins: „Við viljum vera styðjandi við hvert annað, stuðla að fræðslu og þekkingu um málefni einhverfra og gæta hagsmuna barnanna okkar og fjölskyldna þeirra.“

ADHD samtökin
Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum.

Tourette-samtökin
Markmið samtakanna er að standa vörð um hagsmuni TS-einstaklinga og fjölskyldna þeirra.