Einblöðungar

Vissir þú? Hér fyrir neðan koma tenglar á ýmsan fróðleik tengdum einhverfu.

Að einhverfa tengist óvenjulegum taugaþroska. Hún birtist í því hvernig einstaklingur skynjar sig sjálfan og veröldina, á samskipti við aðra og myndar tengsl við fólk og umhverfi. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og kemur fram í barnæsku. Hún er ólík hjá fólki allt eftir aldri, þroska og færni en er til staðar út ævina. Einhverfueinkenni eru breytileg eftir einstaklingum, bæði hvað varðar fjölda og styrk og því er talað um einhverfuróf.

Að skynjun fólks á einhverfurófi er sérstök. Við fáum allar upplýsingar frá umhverfinu í gegnum skilningarvitin fimm (sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt). Til viðbótar höfum við jafnvægisskyn (innra eyra) og hreyfi- og stöðuskyn (vöðvar og liðamót). Kerfin þurfa að vinna saman svo við getum hreyft okkur og hegðað á þann hátt sem til er ætlast.

Að kvíðaeinkenni koma oft fram hjá börnum og fullorðnum á einhverfurófi. Rannsóknir sýna að stór hluti fólks á einhverfurófinu glímir við kvíða á háu stigi sem getur valdið mikilli vanlíðan og haft neikvæð áhrif á þátttöku í daglegu lífi. Einkennin eru mismunandi og þeir sem þekkja viðkomandi best eru helst til þess fallnir að bera kennsl á þau.

Að til eru ýmsar mýtur um einhverfu. Margir sjá fyrir sér Sólskinsdrenginn eða Raymond úr kvikmyndinni Rain Man þegar einhverfu ber á góma. Fólk á einhverfurófi er eins misjafnt og það er margt. Það getur verið strákurinn sem er stöðugt að trufla kennsluna, stelpan sem teiknar best af öllum í skólanum, barnabarnið sem bregst illa við snertingu, unga konan á kassanum í Bónus, háskólaprófessorinn, kvikmyndaleikstjórinn, skrýtna konan í sundi sem þarf alltaf að hafa sama skápinn og þannig mætti lengi telja.