Hugsuðir - unglingahópur:
Í febrúar 2009 var farið af stað með unglingahóp á vegum Einhverfusamtakanna. Hópurinn er hugsaður fyrir ungmenni á einhverfurófi á aldrinum 12-20 ára. Markmiðið er að efla virkni þeirra, kynna þau fyrir öðrum unglingum í svipuðum sporum og bjóða upp á tækifæri til að gera það sem jafnaldrar þeirra eru að fást við í sínum frítíma.
Það er ekki skyldumæting í alla tíma Hugsuðanna og tölvupóstur er sendur með viku fyrirvara um hvað verður gert í næsta skipti sem hópurinn hittist – þannig að þeir Hugsuðir sem hafa ekki gaman af því að fara í bíó, svo dæmi sé tekið, þurfa ekki að mæta í það skiptið.
Að öllu jöfnu eru umsjónarmenn hópsins fimm og þeir hafa sérþekkingu á einhverfurófsröskunum.
Út úr skelinni - hópur fyrir fullorðna:
Fundir hjá hópnum Út úr skelinni eru fyrir fólk á einhverfurófinu, 18 ára og eldra. Hópurinn hittist mánaðarlega yfir vetrarmánuðina og nýtur stuðnings frá einhverfuráðgjöfum. Hlutverk Skeljarinnar er annars vegar að vera vettvangur þar sem fólk getur rætt saman um reynslu sína og lært hvert af öðru og hins vegar að veita tækifæri til að hitta aðra og eiga samræður um áhugamál og fleira.
Fundirnir eru haldnir einu sinni í mánuði, á sunnudegi kl. 15:15 - 17:15, til skiptis á Háaleitisbraut 13, 4. hæð og á Zoom.
Allir sem telja sig vera á einhverfurófi og eru orðnir 18 ára eru velkomnir á fundina hjá Út úr Skelinni.
Konur á einhverfurófi:
Undanfarin ár hafa Einhverfusamtökin staðið fyrir reglulegum fundum fyrir konur á einhverfurófi þar sem þær hittast og ræða saman. Fundirnir eru fyrir konur sem staðsetja sig á einhverfurófinu, óháð greiningu. Umræðuefnin sem koma upp á fundum eru afar mismunandi en það sem mest hefur verið rætt um tengist gjarna einhverfugreiningunni, sem því miður virðist hafa komið ansi seint hjá mörgum, sem þá hafa þurft að glíma árum saman við ýmis vandamál, sem fylgja því að vera á einhverfurófinu. Einnig hefur mikið verið rætt um áhugamál, atvinnuþátttöku, almenna líðan, kvíða og þunglyndi.
Hópurinn hittist mánaðarlega yfir vetrarmánuðina undir handleiðslu einhverfuráðgjafa.
Fundirnir eru haldnir annan þriðjudag í mánuði kl. 20:00 til 22:00, Háaleitisbraut 13, 2. hæð.
Nánari upplýsingar um hópinn veita Laufey Gunnarsdóttir á netfanginu laufeyg@gmail.com og Sigrún Birgisdóttir á netfanginu sigrun@einhverfa.is.
Marglitur hittingur - skapandi samvera fullorðinna á einhverfurófi
Í framhaldi af listsýningunni Marglitum mars, sem haldin var vorið 2022, efna Einhverfusamtökin til skapandi samveru í Hamrinum - ungmennahúsi þar sem einhverfir, 18 ára og eldri geta komið saman, unnið að sköpun sinni og hitt aðra á rófinu með svipuð áhugamál. Aðstaðan í húsinu býður upp á fjölbreytta listsköpun en fólk verður að taka með sér það hráefni sem vinna skal úr og gæta að hreinlæti á staðnum.
Hvenær: Fyrsta laugardag hvers mánaðar kl. 13:00-16:00
Hvar: Hamarinn, ungmennahús. Suðurgötu 14, 220 Hafnarfjörður.
Einhverfukaffi í Bókasafni Hafnarfjarðar
Einhverfukaffi haldið í sal í Bókasafni Hafnarfjarðar. Um er að ræða samverustund á forsendum einhverfra og er hún opin öllum sem tengja við einhverfurófið. Umsjón samverunnar er í höndum Guðlaugar Svölu Kristjánsdóttur.
Sjá nánar á fb-síðu Einhverfukaffisins: (1) Einhverfukaffi | Facebook
Nánari upplýsingar um hópana veitir Sigrún Birgisdóttir í síma 897-2682 og á netfanginu einhverfa@einhverfa.is.