Einhverfusamtökin funda árlega með Norðurlöndunum og baltnesku löndunum. Í ár var komið að Íslandi að sjá um fundinn og héldum við hann í síðustu viku. Fengum við 11 gesti til landsins og einnig tóku stjórnarmenn hjá okkur og nýr framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi þátt. Þema fundarins var menntun og atvinnumöguleikar einhverfs fólks.
Á fimmtudeginum kynntu löndin stöðuna í sínum löndum og því miður er sama sagan hjá okkur öllum, fá tækifæri þegar kemur að framhaldsmenntun og einnig erfitt að komast inn á vinnumarkaðinn.
Föstudagurinn fór í vettvangsferðir og fyrirlestra. Fyrir hádegi heimsóttum við HR og fengum kynningu á nýja náminu í forritun ætlað einhverfum. Einnig heimsóttum við Specialisterne á íslandi og fengum kynningu á starfinu þar. Eftir hádegi voru flutt þrjú erindi.
-Vinnumálastofnun kom og kynnti stuðning við fatlað fólk út á almennan vinnumarkað og þær nýjungar sem þau bjóða uppá.
-Bjarney L. Bjarnadóttir kynnti masterverkefnið sitt sem fjallaði um einhverfa á vinnumarkaði og hvernig þeir eru útilokaði á fyrsta stigi ráðningarferla vegna hæfniskrafna í atvinnuauglýsingum.
-Elina Havukainen frá Finnlandi kynnti rafræna fræðslu um einhverfu ætlaðan ungu fólki á aldrinum 14-28 ára.
Á laugardag héldum við áfram að ræða um stöðuna í hinum ýmsu málum og erum við sammála að það er alls staðar mikil bið eftir greiningum og þjónustu, og tækifærin í námi og starfi eru af skornum skammti.