Minn styrkur

Úr Fréttablaðinu 5.02.2010
Félagsfærni einhverfra unglinga bætt

Helgi Þór Jónsson og Sigrún Valgarðsdóttir eru meðal aðstandenda námskeiðsins Minn styrkur sem ætlað er einhverfum unglingum.
Námskeið fyrir einhverfa unglinga þar sem félagsfærni þeirra verður meðal annars efld verður haldið næsta sumar.

Ekki hefur verið boðið upp á sambærileg námskeið áður en að sögn Helga Þórs Jónssonar, eins skipuleggjenda námskeiðsins, er mikil þörf á því að styrkja félagsfærni einhverfra unglinga. Á unglingsárum breytist samskipti, meira sé um ósögð orð og hálfkveðnar vísur sem reynist einhverfum oft erfitt að ráða í.

Helgi er félagi í Umsjónarfélagi einhverfra og segir hugmyndina að námskeiðinu hafa kviknað í kjölfar heimildarmyndarinnar Sólskinsdrengsins. Í henni er meðal annars fjallað um styrkleika einhverfra sem margir eru mjög hæfileikaríkir. Í framhaldinu var ákveðið að þróa námskeið fyrir einhverf börn og unglinga til að efla þau á ýmsum sviðum.

Leitað var samstarfs við þroskaþjálfarabraut HÍ um hönnun og uppbyggingu sumarnámskeiðs. Helgi Þór segir frábært hversu vel hugmyndinni hafi alls staðar verið tekið. Meðal annars styrkir Soroptimistafélag Reykjavíkur námskeiðið og segir Sigrún Valgarðsdóttir, varaformaður þess, að þeim hafi þótt hugmyndin svo góð og vel útfærð að þær vildu leggja sitt af mörkum til þess.

Verkefnið Minn styrkur, sem sagt námskeiðið og hugmyndin á bak við það, verður kynnt í Háskóla Íslands í dag klukkan 12.- sbt