Menningarsjóður Visa úthlutar 8 styrkjum

Stjórn Menningarsjóðs Visa hefur úthlutað 8 styrkjum í ár. Stjórn sjóðsins ákvað að í ár skyldi styrkjum varið til menningar-, líknar- og velferðarmála. Að þessu sinni hlutu eftirtaldir styrk úr sjóðnum:

Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra - til að gefa út afmælis- og fræðslurit félagsins.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur - til frekari uppbyggingar stofnunarinnar.

Umsjónarfélag einhverfra - til að standa straum af kostnaði við unglingastarf félagsins.

Leikhópurinn Vesturportið - til að efla starfsemi leikhópsins.

Geirþrúður Á. Guðjónsdóttir - til að stunda meistaranám í fiðluleik við Hartt School of Music í Hartford í Connecticut.

Jóhann Nardeau - til að stunda BA nám í trompetleik við Parísarkonservatoríið.

Matthías I. Sigurðsson - til að stunda BA nám í klarinettuleik við Conservatorium van Amsterdam.

Sigríður Sunna Reynisdóttir - til að stunda nám í leikbrúðulist við Central School of Speech and Drama í London.

Á hluthafafundi nýverið var ákveðið að breyta nafni sjóðsins í Samfélagssjóð Valitor og mun sjóðurinn bera nýtt nafn eftirleiðis. Sjóðurinn var stofnaður fyrir 19 árum og er hlutverk hans að styðja við vandlega valin málefni sem bæta mannlíf og efla. Efni styrkveitinga hefur þróast í áranna rás og þykir við hæfi að nafn sjóðsins endurspegli tilgang hans og beri nafn félagsins. Frá upphafi hafa verið veittir samtals 124 styrkir til einstaklinga og samtaka sem starfa að menningar-, mannúðar- samfélags- og velferðarmálum. Framvegis er stefnt að úthlutun úr sjóðnum tvisvar á ári. Stjórn sjóðsins afhenti styrkina en hana skipa Björk Þórarinsdóttir, stjórnarformaður VALITOR, Viðar Þorkelsson, forstjóri VALITOR og Kristján Þór Harðarson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs VALITOR. Nánari upplýsingar veitir Kristján Þór Harðarson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs í síma 525-2000

Á meðfylgjandi mynd eru:

Fremri röð f.v. Hörtur Þórarinsson, Guðrún Nielsen og Þórey Guðmundsdóttir frá Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra FÁÍA, Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrir hönd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Geirþrúður Á. Guðjónsdóttir, Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Umsjónarfélags einhverfra, Judith Thorbergsson fyrir hönd Matthíasar I. Sigurðssonar, Selma Reynisdóttir fyrir hönd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur, Martial Nardeau fyrir hönd Jóhanns Nardeau og Viðar Þorkelsson, forstjóri VALITOR.

Aftari röð f.v. Björk Þórarinsdóttir, stjórnarformaður VALITOR, Gísli Örn Garðarsson og Víkingur Kristjánsson fyrir hönd Leikhópsins Vesturportið.