Marglitur mars og listsýning á alþjóðadegi einhverfu 2. apríl

2. apríl er alþjóðadagur einhverfu og hafa Einhverfusamtökin jafnan efnt til viðburðar af því tilefni.

Í ár er ætlunin að beina sjónum að listum og skapandi greinum með því að efna til listsýningar og lifandi dagskrár þar sem fólk á einhverfurófi er í aðalhlutverki.

Yfirskrift verkefnisins í ár verður „Marglitur mars“.

Hugmyndin að baki verkefninu byggir á fjölbreytileika einhverfurófsins og þeirri margbreytilegu listsköpun og frumleika sem þar er að finna. Í forgrunni verður fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi og verður verkum þeirra leyft að tala.

Bráðlega fara í loftið kynningarsíður á samfélagsmiðlum en í dag 1. mars kynnum við með stolti lógó verkefnisins sem hannað er af Valrós Gígju.

Sjálf listsýningin verður haldin 2. og 3. apríl í húsnæði Hamarsins, ungmennahúss, að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði. Verkefnið mun þó hefjast í marsmánuði með kynningu á þátttakendum, list þeirra og sköpun með umfjöllun á samfélagsmiðlum Einhvefusamtakanna og í fjölmiðlum.

Það er von okkar að Marglitur mars muni verða vettvangur samtals og jákvæðrar umfjöllunar og jafnvel upphaf að nýrri hefð.