Listsýning Einhverfusamtakanna 2. og 3. apríl í Hamrinum, Suðurgötu 14, Hafnarfirði

Í ár fögnum við alþjóðlegum degi einhverfu á forsendum einhverfra,

með listsýningu þar sem áherslan er á fjölbreytni og styrkleika einhverfs fólks

Listsýningin verður haldin 2. og 3. apríl í húsnæði Hamarsins, Ungmennahúss, að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði, og er sýningin opin frá 12 til 18 báða dagana. Í forgrunni er fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi og leyfum við verkum þeirra að tala. Við höfum notað mars mánuð til að kynna listafólkið á facebook síðunni Marglitur mars

Gefum þátttakendum orðið:

„List hefur alltaf verið útrásin mín. Hvort sem það er í ljóðaformi, að mála eða söngur. Eftir erfiðan dag lokaði ég mig af og söng eins og ég ætti lífið að leysa. Ef ég var að kljást við erfiðar aðstæður þá fór ég að mála og sökkti mér í heim litana. Þegar kom að erfiðum tilfinningum þá fór ég beint að skrifa ljóð.“

„Ég sæki mestan innblástur í tilfinningar mínar og skynjun. Hvernig lýsir maður því að skynja áreiti margfalt á við óeinhverfa? Hvernig lýsir maður upplifun af því að vera með sál sem er of stór fyrir líkama sinn? … Með ull og bandi reyni ég að bæta mýkt í harðan og sléttan heim.“

„Mér finnst að einhverfan hjálpi mér að einbeita mér að áhugamálunum mínum og uppáhalds viðfangsefnum mínum í myndlist og skúlptúr.“

Sýningin er haldin í Hamrinum, ungmennahúsi, Suðurgötu 14, Hafnarfirði, ef komið er að húsinu Strandgötumegin er gengið upp fyrir það og inn frá Suðurgötunni. Næg bílastæði eru í næsta nágrenni.