Hvar er best að byrja? Fræðslukvöld með Virpi Jokinen fyrir félagsmenn Einhverfusamtakanna.

Skipulagsleysi getur endurspeglast í líðan; þegar maður hugsar um tiltekt en veit ekki hvar á að byrja og manni fallast hreinlega hendur. Við erum sífellt að takast á við breyttar aðstæður sem hafa oft í för með sér gamla og nýja hluti, oft ofgnótt af hlutum – og stundum er ekki auðvelt að eiga við þetta allt, að minnsta kosti ekki ein og óstudd.
Virpi fjallar mikið um áskoranir þess að sleppa tökunum en það er oft prófsteinninn í skipulags- og tiltektarverkefnum. Virpi tekur sjálfa sig ekki of alvarlega og leitast við að hafa öll erindin létt og aðgengileg.
Megináhersla erindisins er á hvernig skipulag nýtist sem verkfæri í átt að bættri líðan og á mikilvægi þess að skoða raunverulegar þarfir okkar og langanir hér og nú og aðgreina þær frá þörfum og löngunum liðinna tíma.
Virpi vonast til að bæta líðan og létta lund þátttakenda og fjallar um alla þá þætti sem eru sammannlegir og sem flestir kannast við en sem okkur hættir stundum til að halda að hái engum í heiminum nema okkur sjálfum.
Virpi Jokinen er fyrsti vottaði skipuleggjandinn (e. Professional Organizer) hér á landi. Hún er finnsk, tveggja barna móðir, hefur búið á Íslandi í rúman aldarfjórðung og talar íslensku reiprennandi. Hún er menntuð í myndlist og leiðsögn, lauk skipuleggjandanámskeiði í Helsinki haustið 2018 og er með diplómu á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Markmið Virpi er að allir sem hlusta á erindi hennar fái svör við sem flestum af spurningum sínum og fari til síns heima eða til sinna starfa með hugmynd um fyrstu skrefin í áttina að skýrara, léttara og einfaldara hversdagsskipulagi.