Hönnuðirnir og sagan á bak við nýju boli Einhverfusamtakanna

Steingerður Lóa Gunnarsdóttir og Auður Ákadóttir hönnuðir merkisins á nýju bolum Einhverfusamtakanna…
Steingerður Lóa Gunnarsdóttir og Auður Ákadóttir hönnuðir merkisins á nýju bolum Einhverfusamtakanna.

Í lok apríl í fyrra komu upp umræður í Skynsegin facebookhópnum hvort það væri ekki sniðugt að búa til prófílmyndaramma sem sýndi að einhverfa væri allskonar og að einhverfir væru stærri hluti af samfélaginu en marga grunar. Fólk á einhverfurófi lendir oft í því að heyra: Þú lítur ekki út fyrir að vera einhverf.

Þetta var mikið samfélagsverkefni og margir komu með uppástungur að frösum og tillögur að borðahönnun. Ein hugmyndin var frasinn “Svona lítur einhverfa út” og svo kom uppástungan að regnboga-eilífðartákningu.

Regnboga-eilfífðartáknið kom fyrst á sjónarsviðið 2005 og hefur nú tekið við sem tákn einhverfu hjá einhverfu-aktivistum. Auður og Steingerður Lóa höfðu reynslu af grafískri hönnun og tóku við keflinu. Þær útfærðu prófilmyndaramma með óendanleikatákninu og settu á facebook við góðar undirtektir skynsegingrúppunnar sem fékk einnig þá hugmynd að setja þetta á boli eða peysur svo hægt væri að fara út með þessi skilaboð í raunheima.

Þegar kom að því að gera nýja boli fyrir Einhverfusamtökin í tengslum við Reykjavíkurmaraþon, leituðu samtökin til Auðar og Steingerðar Lóu og báðum þær að útfæra borðann og skilaboðin á boli. Auður málaði nýtt óendanleikamerki með alla regnbogans liti og Steingerður prófaði nokkrar útfærslur á hönnun. Niðurstaðan varð svo að regnbogaóendanleikatáknið á bolnum er 6 lita með halftone skilum á milli litanna. Halftone punktaskiptingin myndar næstum sjónhverfingu og lætur litina blandast saman í fjarlægð.

Einhverfusamtökin eru hæst ánægð með hönnunina á bolunum og þakka Auði og Steingerði Lóu kærlega fyrir alla vinnuna sem þær lögðu á sig við þetta verkefni.