Heimsóknarvinur með hund

Guðrún Margrét og Beo við útskriftina sem heimsóknarvinir
Guðrún Margrét og Beo við útskriftina sem heimsóknarvinir

Einhverfusamtökin óska Guðrúnu Margréti Valgeirsdóttur og hundinum hennar honum Beo til hamingju með að vera orðin vottaðir heimsóknarvinir hjá Rauða krossinum. Guðrún Margrét þekkir það af eigin raun hvað samneyti við hunda getur haft styrkjandi áhrif á líðan einhverfs fólks.

Hún nýtti sjálf starf með hundum og við hundaþjálfun sem leið til að takast á við kvíða og erfiðleika í daglegu lífi og langar að hjálpa fleirum í svipuðum sporum í átt til betri heilsu.

Beo, eða Borzkas Beowulf eins og hann heitir fullu nafni, flutti Guðrún Margrét sjálf til landsins þegar hann var hvolpur. Hann er af tegundinni Borzoi eða Rússneskur úlfhundur sem eru “sighthounds” eða mjóhundar.

Þau vilja gjarnan hitta og heimsækja einhverft fólk, enda þekkir Guðrún Margrét vel til þarfa einhverfra og Beo hefur alist upp með einhverfum einstaklingi. Hægt er að sækja um að fá heimsóknarvin hjá Rauða krossinum hér: hundavinir@redcross.is