Fræðsluátak Einhverfusamtakanna

                  Kæru foreldrar og félagar,

Einhverfusamtökin verða með fræðsluátak á vordögum. Markmiðið er að fræða fagfólk og almenning um einhverfu, bæta þannig þekkingu og stuðla að auknum skilningi í samfélaginu. Í fyrsta áfanga er fókus á einhverf börn og unglinga í grunn- og framhaldsskóla. Við ætlum að ná til kennara, foreldra, nemenda og almennings með efni á íslensku sem verður aðgengilegt á netinu.

Börn og unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum. Það getur skipt sköpum fyrir líðan einhverfra barna og árangur þeirra í námi að umhverfið sé styðjandi og ýti undir það að þau nýti styrkleika sína og áhugasvið. Við köllum það einhverfuvænt umhverfi.

Við ætlum að framleiðajákvæð og fræðandi videóviðtöl, þar sem einhverfir eru í aðalhlutverki.Í viðtölunum verður lögð áhersla að miðla jákvæðri reynslu og viðhorfi barnsins eða unglingsins til daglega lífsins, hvernig það er að vera einhverfur, nýta styrkleika sína og áhugamál til að auka færni, taka þátt í samfélaginu og blómstra.Markmiðið er að upplýsa, fræða, og eyða fordómum.

Getið þið aðstoðað okkur og sent ábendingar í tölvupósti á netfangið sigrun@einhverfa.is um einhverfa einstaklinga á aldrinum 6-20 ára sem væru til í að taka þátt og koma í viðtöl. Allar ábendingar eru afar vel þegnar. Upptökur fara fram dagana 1. - 8. apríl og verða viðtölin unnin í samvinnu og samstarfi við foreldra þátttakenda.

Bestu kveðjur og fyrirfram þakklæti – Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna.