Einhverfuhandbókin - Ný upplýsingasíða í samstarfi Einhverfusamtakanna, Auðar Ákadóttur og Steingerðar Lóu Gunnarsdóttur.

Nú um helgina opnaði ný vefsíða sem ætlað er að geyma allrahanda gagnlegar upplýsingar um einhverfu, nokkurs konar lifandi handbók í stöðugri mótun. Eða eins og segir á síðunni:

"Mörgu einhverfu fólki líður eins og allir hinir hafi fengið handbók um hvernig lífið virkar og hvernig allir eiga að haga sér. Markmið einhverfuhandbókarinnar er að safna saman efni og upplýsingum um allskonar tengt einhverfu. Handbókin er uppsett og viðhaldið af einhverfu fólki og efnið er valið út frá því sjónarhorni að einhverfa sé hvorki röskun né sjúkdómur heldur hluti af náttúrulegum taugafjölbreytileika mannflórunnar."
 
Handbókinni er skipt niður í nokkrar síður:
Annarsvegar eru gagnlegir hlekkir, svo sem listar af lærdómsríku og/eða skemmtilegu efni eða listar af hjálpartækjum og úrræðum.
Hinsvegar eru hjálplegar síður um hvað er best að hugsa um ef þú ert að íhuga hvort þú sért einhverf/t/ur, hvaða stuðningur er í boði á íslandi, hugtakasafn og listi yfir “aukaleikara” eða aðra hluti sem einhverfir gætu þurft að kljást við.
 
Við hvetjum fólk til að vera duglegt að skoða efni síðunnar og nýta sér möguleikann á því að stinga upp á efni sem ætti heima á þar inni.