Ályktun stjórnar Einhverfusamtakanna vegna frétta um Arnarholt

Í ljósi frétta um Arnarholt vilja Einhverfusamtökin hvetja stjórnvöld til að sjá til þess að eftirlit með þjónustu við fatlað og langveikt fólk sé nægjanlegt. Auka þarf fjárframlög til réttindagæslu fatlaðs fólks og tryggja að hún sé eins óháð stjórnvöldum og frekast er unnt. Réttindagæslan heyrir nú undir Félagsmálaráðuneytið sem sér einnig um þjónustu við fatlað fólk. Slíkt er ótækt og brýnt að flytja hana sem fyrst undir annað ráðuneyti eða setja á laggirnar Mannréttindastofnun eins og talað hefur verið um og hafa Réttindagæsluna þar undir.

Mál eins og þetta undirstrikar mikilvægi þess að Alþingi lögfesti og innleiði að fullu Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fyrst, eins og getið var í þingsályktun sem Alþingi samþykkti þann 3. júní 2019.

Stjórn Einhverfusamtakanna.