Áheitasöfnun í Reykjavíkurmaraþoni

Búið er að opna nýjan áheitavef fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2010, hlaupastyrkur.is. Um er að ræða mun notendavænna umhverfi heldur en unnið hefur verið í undanfarin ár.

Á vefnum geta hlauparar sett inn myndir af sér og sagt frá því hversvegna þeir hafa valið að hlaupa fyrir tiltekið góðgerðafélag. Áheit er hægt að greiða með kreditkorti eins og verið hefur undanfarin ár en auk þess er hægt að heita á hlaupara með því að senda sms skilaboð.

Til að hefja söfnun þurfa hlauparar að fara inná vefinn hlaupastyrkur.is og velja „nýskráning“. Þá fá þeir tilboð um að setja inn mynd af sér og segja hversvegna þeir hlaupa fyrir tiltekið málefni. Hægt er að safna áheitum í tveimur flokkum; sem boðhlaupslið eða sem einstaklingur sem tekur þátt í maraþoni, hálfmaraþoni, 10 km hlaupi eða 3 km skemmtiskokki.

Það er von Reykjavíkurmaraþons að nýr vefur setji aukin kraft í áheitamálin og skili enn meiri tekjum í öll þau þörfu málefni sem hægt er að hlaupa fyrir.