Ágóði tónleika Caritas

CARITAS á Íslandi hefur nýlega afhent 850.000 þúsund krónur sem er ágóði af aðventutónleikum í Kristskirkju við Landakot til styrktar umsjónarfélagi einhverfra.
Í fréttatilkynningu segir m.a. að metaðsókn hafi verið á tónleikana, en kirkjan tekur rúmlega 250 manns. Tónleikarnir voru fyrst haldnir 1994 og er þetta orðinn árviss atburður. Það eru um 9 milljónir sem Caritas hefur safnað á þessum tíma sem hlýtur að teljast gott af ekki stærra félagi. Án þeirra listamanna, sem allir hafa gefið vinnu sína, væri þetta ekki mögulegt.

Caritas-tónleikarnir marka fyrir marga upphaf aðventunnar og fjölmargir gestir komi ár eftir ár á þessa tónleika.

Meginhlutverk Caritas á Íslandi er félagslegt réttlæti og hjálparstarf. Cartias hefur skipulagt fjölmörg átaksverkefni hérlendis vegna þeirra sem minna mega sín eða verið settir hjá í tilverunni.

Caritas á Íslandi starfar innan rómversk kaþólsku kirkjunnar og er hluti af Alþjóðasambandi Caritas (Caritas Internationalis).

Árvakur/Ómar

Afhending Hjörtur Grétarsson, formaður umsjónarfélags einhverfra, Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri

félags einhverfra, Sigríður Ingvarsdóttir, form. Caritas, og Gyða M. Magnúsdóttir, stjórnarmaður Caritas.