Biðlistar eftir greiningu á einhverfu

Umsjónarfélag einhverfra skorar á stjórnvöld að gera átak í að eyða biðlista eftir greiningu á Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins. Tíðni þeirra sem greinast með einhverfu er að hækka og greinast nú 6 einstaklingar af 1.000 á einhverfurófinu.   Að meðaltali greinast 26 einstaklingar í hverjum árgangi á Íslandi. Nú eru 154 börn og ungmenni á biðlista eftir greiningu og þurfa mörg hver að bíða í nokkur ár og fá á meðan ekki rétta þjónustu

Frístunda og tómstundaúrræði. 

Skorað er á sveitafélög landsins að þau tryggji fötluðum börnum og unglingum frístundarúrræði að loknum hefðbundnum skóladegi, eins og samkomulag Félagsmálaráðuneytis og sveitafélaga gerir ráð fyrir.

Félagið hvetur að hafinn verði undirbúningur að samkomulagi sem tryggir sama úrræði fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri.

Við skorum jafnframt á sveitafélög að tryggja sumartómstundaúrræði fyrir einstaklinga með einhverfu, til jafns við önnur börn og ungmenni. 

Þessi þjónusta gegnir lykilhlutverki í  félagslegri virkni barna og unglinga með einhverfu og tryggir jafna stöðu foreldra til þáttöku í atvinnulífinu.

Búsetumál. 

Umsjónarfélag einhverfra bendir á umtalsverðan vanda í búsetumálum einhverfra einstaklinga.  Sérstaklega er ástandið alvarlegt á Reykjanesi, en þar búa rúmlega 6 af hverjum 10 fullorðinna einhverfra enn á heimilum foreldra sinna, en til samanburðar er þetta hlutfall um 37% í öðrum landshlutum, sem er óviðunandi hátt hlutfall.  Búast má við verulega aukinni þörf fyrir sambýli og önnur búsetuúrræði fyrir einhverfa á næstu 8 árum, þar eð fleiri börn hafa greinst einhverf á síðustu árum en áður var. Félagsmálayfirvöld verða nú þegar að hefja undirbúning á því hvernig mæta á aukinni þjónustuþörf vegna fjölgunar einhverfra. UE telur þörf á að taka a.m.k. 12 ný sambýli í notkun fyrir einhverfa á höfuðborgarsvæðinu einu saman á næstu 8 árum til þess að þjónusta þá einstaklinga sem þurfa hvað mesta umönnun.  Þar af er brýn þörf fyrir 3 ný sambýli í Suðvesturkjördæmi á næstu tveimur árum.  Einnig þarf að fjölga áfangastöðum til þess að auka líkur á að fleiri einhverfir einstaklingar geti tekið upp sjálfstæða búsetu, svo og að auðvelda einhverfum að búa lengur í foreldrahúsum með því að bjóða upp á aukna þjónustu í formi skammtímavistunar, þ.á.m. lengri vistun (2-3 vikur í senn) einu sinni til tvisvar á ári.  Slíkar aðgerðir yrðu ekki aðeins til þess að auka lífsgæði einhverfra og aðstandenda þeirra, heldur munu þær einnig auka hagkvæmi í þjónusturekstri félagsmálayfirvalda.   Brýnt er að unnin verði áætlun um nauðsynlegan fjölda stöðugilda sem tengjast  þjónustu við einhverfa í búsetuúrræðum.  Í því sambandi þarf að leggja áherslu á framhalds- og endurmenntun starfsfólks til að bæta starfsheldni, laða fleiri að störfum og auka hæfni starfsmanna. Á liðnu starfsári vann nefnd á vegum UE úttekt á núverandi stöðu og að mótun framtíðarsýnar í búsetumálum  (sjá á heimasíðu UE, http://einhverfa.is//).