Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Umbreytingatæki fyrir jöfn borgararéttindi um allan heim

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólksUmbreytingatæki fyrir jöfn borgararéttindi um allan heim

Gerard Quinn, prófessor við lagadeild National University of Ireland, Galway

Hátíðarsalur Háskóla Íslands, þriðjudag 31. október kl. 12.00-13.00 

Í fyrirlestrinum fjallar dr. Gerard Quinn um tilurð Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og deilir með áheyrendum vonum og væntingum þeirra sem tóku þátt í gerð þessa nýja mannréttindasáttmála. Meðal þess sem einkenndi vinnuna var virk þátttaka fatlaðs fólks í öllu ferlinu. Dr. Quinn mun fjalla sérstaklega um hvaða áhrif þetta hafði á vinnubrögð og endanlega gerð sáttmálans. Hann beinir jafnframt sjónum að þeim lýðræðislegu nýjungum í sáttmálanum sem gera kröfu um náið samstarf stjórnvalda við samfélagsþegna og félagasamtök um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks. Þessi tegund samstarfs gerð það kleift að unnt var að þróa áherslur í sáttmálanum umfram hefðbundnar áherslur á jöfn tækifæri og setja sjálfræði með viðeigandi stuðningi í öndvegi. Þá mun hann lýsa þeim róttæku kerfisbreytingum sem, að hans mati, þurfa að eiga sér stað á þjónustu við fatlað fólk þannig að hún mæti í raun þörfum þess. Í lokin mun hann bregða ljósi á þær breytingar sem mannréttindasáttmálinn hefur nú þegar leyst úr læðingi um allan heim.

Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku, hann er opinn öllum og verður táknmálstúlkaður. 

Gerard Quinn er prófessor við lagadeild Natinal University of Ireland í Galway og forstöðumaður Centre for Disability Law & Policy. Árið 2002 var hann annar tveggja höfunda að skýrslu sem unnin var fyrir Sameinuðu þjóðirnar en skýrsla þessi átti stóran þátt í að ýta úr vör vinnu við Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Hann leiddi síðan sendinefnd Rehabilitation International við gerð samningsins. Dr. Quinn hefur tekið virkan þátt í starfi að mannréttindum í heimalandi sínu og situr í ráðgjafarnefnd forseta Írlands um stjórnarskrármál. Hann hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín að mannréttindum fatlaðs fólks og er ráðgjafi ýmissa alþjóðastofnana á sviði mannréttinda. Hann hefur doktorsgráðu frá lagadeild Harvard háskóla. Rannsóknir hans fjalla meðal annars um heimspekilegan grundvöll virkrar og merkingarbærrar samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og kenningar um grundvallarréttindi einstaklinga.