Nýtt nafn á félagið

Á aðalfundi Umsjónarfélags einhverfra þann 30. apríl sl. var samþykkt að breyta nafni félagsins í Einhverfusamtökin. Þegar félagið var stofnað árið 1977 voru það foreldrar og fagfólk á BUGL sem stóðu að stofnuninni og fékk félagið nafnið Umsjónar og áhugamannafélag einhverfra barna og á fyrsta aðalfundi félagsins 1978 var nafninu breytt í Umsjónarfélag einhverfra barna. Á þeim tíma fengu þeir einir greiningu á einhverfurófi sem þurftu mikla umönnun og aðstoð.  Í kringum 1990(nákvæmar heimildir vantar) var orðið „barna“ fellt út úr nafni félagsins þar sem markhópur félagsins var ekki eingöngu börn.  

Á síðustu árum hefur orðið mikil fjölgun í greiningum fullorðinna og margir eru að fá greiningarnar Aspergersheilkenni eða ódæmigerð einhverfa.  Þessi hópur er orðinn virkur í starfi félagsins, situr í stjórn og nefndum og hefur mikið fram að færa varðandi málefni einhverfra. Því var talin þörf á að finna félaginu nafn sem næði yfir alla félagsmenn. Vonum við að það hafi tekist með þessari nafnbreytingu.