Einhverfar raddir allan ársins hring

Ástrós Lilja á TikTok
Ástrós Lilja á TikTok

Skilningur á einhverfu er alltaf að aukast samfara því að fleira einhverft fólk stígur fram, segir sína sögu og tjáir sig frá eigin brjósti. Áður fyrr var umfjöllun um einhverfurófið aðallega í höndum óeinhverfra og byggði þá fyrst og fremst á ytri ásýnd frekar en innri veruleika.

Frásagnir einhverfra má finna hvort sem er í bókum, í kvikmyndum eða á netinu og sífellt bætist við þá flóru.

Íslenskum talsmönnum fjölgar líka stöðugt, sem er mjög jákvætt fyrir þau sem vilja nálgast upplýsingar á íslensku út frá veruleika okkar hér á landi um tækifæri, réttindi, skólakerfið, atvinnu- og félagslíf og fleira.

Þetta er fjölbreyttur hópur fólks með margvíslega reynslu. Sum hafa vitað af einhverfunni frá unga aldri og kynnst einhverjum þeim úrræðum sem í boði eru t.d. í skóla en önnur fengið greininguna fullorðin og sjá lífið í nýju ljósi.

Á vef Einhverfusamtakanna má finna samantekt yfir ýmsar íslenskar blogg- og facebooksíður með eldra og nýrra efni. Það er áreiðanlega ekki tæmandi og við þiggjum allar ábendingar og viðbætur eftir því sem við á.

Við viljum vekja sérstaka athygli á nýjustu viðbótunum við listann:

Twitter: @einhverfadoggin

Tiktok: Ástrós Lilja Guðmundsdóttir @dollan.16, Mamikó Dís Ragnarsdóttir @mamikoragnars og Íris Alma Vilbergsdóttir @irisalmav.

Facebook: Að sjá hið ósýnilega (https://www.facebook.com/osynilegar). Brynjar Karl (https://www.facebook.com/theLEGOtitanicbuilder).

Á facebook er líka að finna ýmsa hópa þar sem einhverfa er í forgrunni, til dæmis:

-Einhverfa – stýrt af Einhvefusamtökunum, opin öllum.

-Einhverfurófsgrúppan!:) – stýrt af einhverfum einstaklingum, ætluð fullorðnu fólki á einhverfurófi og öðrum áhugasömum sem fylgja reglum hópsins.

-Skynsegin – stýrt af einhverfu fólki, eingöngu ætluð „neurodivergent“ fólki (einhverfa, ADHD) og hugsuð sem öruggt rými til samskipta.

Vimeo: Að sjá hið ósýnilega (https://vimeo.com/ondemand/seeingtheunseen/340673476). How the Titanic became my lifeboat (https://vimeo.com/ondemand/mylifeboat/537326149). Síðari myndina má einnig finna á vef RÚV þar til 4. júlí 2021, hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/hvernig-titanic-vard-bjorgunarbaturinn-minn/31587/9d7iph.

 

Aðgát skal höfð

Það kann að koma á óvart, en aprílmánuður veldur síaukinni streitu meðal einhverfra jafnt á heimsvísu sem hérlendis. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að aðkoma einhverfra sjálfra er oft af skornum skammti þegar árlegar herferðir undir merkjum árvekni eru skipulagðar. Sérstaklega er blár litur særandi fyrir marga einhverfa í ljósi forsögu þess að farið var að nota þann lit í þessum mánuði í Bandaríkjunum. Sama er að segja um myndir sem innihalda púsluspil og hvers kyns umræða um að einhverfa sé vandamál sem þurfi að leysa.

Þetta sjónarhorn má meðal annars sjá í nýlegu viðtali sem birtist í Fréttablaðinu, við tvær fullorðnar konur á einhverfurófi: https://www.frettabladid.is/lifid/betra-a-vera-fullkomin-einhverf-en-ofullkomin-oeinhverf/

Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að auka umræðu um einhverfu í skólum og á opinberum vettvangi. Mikilvægt er þó að það sé gert í virku samráði við einhverfusamfélagið. Besta leiðin til að tryggja að svo sé er að gefa röddum einhverfra rými og forgang en draga úr því að óeinhverfir leiði umræðuna.

Hugmyndir um verkefni og umfjöllun frá sjónarhóli einhverfra sjálfra eru í raun ótæmandi.

-Til dæmis væri hægt að sýna Að sjá hið ósýnilega og How the Titanic became my lifeboat og vinna svo verkefni út frá þeim í kjölfarið. Hægt er að óska eftir svokölluðum fræðslusýningum á báðum myndunum, þar sem fólk úr myndunum mætir og ræðir við áhorfendur að sýningu lokinni. Hér gætu skólar og leikskólar spunnið við með því að gera sínar eigin eftirmyndir af Titanic og kynnast því af eigin raun hvað það er mikið afrek í sjálfu sér. Útreikningar á fjölda og rúmmáli kubbanna sem Brynjar notaði væri annað dæmi um verðugt verkefni fyrir skólana.

-Hægt er að skoða efnið sem einhverfir setja inn á twitter, tiktok, blogg og víðar og nota það til að víkka út fræðslu um einhverfurófið. Eflaust myndu einhver þeirra sem standa á bak við þetta efni vera reiðubúin að heimsækja skóla ef óskað er eftir beinu samtali.

-Einhverfufræðsla er í boði á vegum Einhverfusamtakanna, bæði fyrir skóla, vinnustaði og stofnanir. Aðilar sem sinna þjónustu við einhverfa gætu til dæmis notað slíkt innlegg í fræðsludagskrá sína í aprílmánuði sem hluta af símenntun.