"Bragðlaukaþjálfun – rannsókn á matvendni hjá börnum. Fæðumiðuð íhlutun í skólaumhverfi"

"Bragðlaukaþjálfun – rannsókn á matvendni hjá börnum. Fæðumiðuð íhlutun í skólaumhverfi" er yfirskrift rannsóknar sem Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði og Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi standa fyrir. Einhverfusamtökin leita til félagsmanna og óska eftir þátttakendum í rannsókninni.

Meðfylgjandi er bref rannsakenda til þátttakenda.
Bragðlaukaþjálfun – rannsókn á matvendni hjá börnum. Fæðumiðuð íhlutun í skólaumhverfi. Auglýst er eftir þátttakendum í rannsókn.

Kæra foreldri/forráðamaður
Leitað er að börnum á aldrinum 8-12 ára ásamt foreldrum af báðum kynjum til að taka þátt í ofangreindri rannsókn. Rannsóknin nær til matarvenja barna og er athyglinni sérstaklega beint að þeim börnum þar sem foreldrar upplifa að matvendni komi niður á fæðuvali og/eða samskiptum í kringum máltíðir. Rannsóknin nær til barna sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða einhverfurófsröskun, en einnig leitum við að börnum án þessara raskana. Þátttaka foreldris/forráðamanns er nauðsynleg þar sem við bjóðum upp á fjölskyldumiðaða íhlutun. 
Með því að svara skimunarlista geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að bæta þekkingu á matvendni barna og mögulegum úrræðum og auka dýpt á skilningi á viðfangsefninu í fjölbreytilegum hópi barna. 
Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og verið tilkynnt til Persónuverndar.

Nánari upplýsingar og tengil á rannsóknina má finna hér fyrir neðan:

http://bit.ly/bragdlaukathjalfun 
(Ef ekki virkar að smella á tengilinn má afrita (copy) hann og líma (paste) í vafra)

Í framhaldi af skimun – þátttaka í rannsókn. Hvað felur þátttaka í rannsókninni í sér?
Slembiraðað verður í upphafi rannsóknar í rannsóknarhóp og viðmiðunarhóp. Börnin fá ásamt foreldrum þjálfun í að meðhöndla, matreiða og smakka mat og er það gert í formi leikja og ýmissa einfaldra verkefna sem unnin eru á námskeiði og heima. Barn og að minnsta kosti eitt foreldri (forráðamaður) mætir í 6 skipti (90 mínútur hvert skipti) á námskeið en auk þess eru tvö fræðsluerindi til undirbúnings fyrir foreldra áður en þjálfunin hefst. Rannsóknin felur í sér athuganir á fæðuvali auk þess sem spurt er um fæðuvenjur, hegðun, líðan og rútínur á heimili. Eftirfylgd er 1, 3 og 6 mánuðum eftir að námskeiði lýkur.
Ekki er greitt fyrir þátttöku í rannsókninni en börnin fá umbun eftir hvern námskeiðstíma í form lítilla gjafa.

Hverjir geta tekið þátt?
Börn af báðum kynjum sem:
• Eru 8-12 ára
• Eru læs
• Geta tjáð sig á íslensku
• Eiga a.m.k. eitt foreldri/forráðamann sem talar íslensku
• Hafa ekki alvarlegt fæðuofnæmi (vegna hættu á krosssmiti)
• Geta matað sig sjálf án erfiðleika
• Eiga ekki erfitt með kyngingu

Fyllsta trúnaðar og nafnleyndar verður gætt.
Öll úrvinnsla rannsóknarinnar verður ópersónugreinanleg þar sem þátttakendum verður úthlutað rannsóknarnúmer. Auk þess verður öllum rannsóknargögnum eytt að úrvinnslu lokinni. Tekið skal fram að þátttakendum er heimilt að hætta þátttöku hvenær sem er í rannsókninni.

Hafir þú áhuga á að fá frekari upplýsingar má hafa samband við Sigrúnu Þorsteinsdóttur, doktorsnema s. 770-5000, eða senda fyrirspurn á netfangið bragdlaukathjalfun@hi.is.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (annaso@hi.is, s. 868-4830).

Ef þú hefur spurningar um rétt þinn sem þátttakandi í vísindarannsókn getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Hafnarhúsinu, 2. hæð, Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík, s. 551-7100, fax: 551-1444, tölvupóstfang: visindasidanefnd@vsn.stjr.is.

Fyrir hönd rannsóknarteymisins,
Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir