Aðalfundur Einhverfusamtakanna

Aðalfundur Einhverfusamtakanna verður haldinn miðvikudaginn 2. júní 2021, klukkan 19:30.

Fundarstaður:  ÍR salur 2. hæð, Skógarseli 12, 109 Reykjavík.

Fundarefni:

   Venjuleg aðalfundarstörf.

   Önnur mál.

Borist hefur tillaga að lagabreytingum sem mun verða tekin fyrir á fundinum.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna og kynna sér starfsemi samtakanna, taka sameiginlegar ákvarðanir um þau málefni sem framundan eru hjá samtökunum. Það þarf sífellt að vera vakandi vegna velferðarmála einhverfra, og því áríðandi að sem flestir taki þátt í félagsstarfinu.

       Kær kveðja, stjórn Einhverfusamtakanna.

 

Lagabreytingartillaga frá Sigrúnu Birgisdóttur: 

7. greining er nú eftirfarandi:

7. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars eða aprílmánuði ár hvert. Stjórn félagsins skal boða til hans skriflega með minnst 10 daga fyrirvara. Tilkynning í tölvupósti til þeirra sem eru á tölvupóstlista félagsins telst skrifleg boðun.  Í fundarboði skal þess sérstaklega getið ef fram hafa komið tillögur til breytinga á lögum þessum.

Tillaga að lagabreytingu:

7. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars eða aprílmánuði ár hvert. Stjórn félagsins skal boða til hans með tilkynningu á heimasíðu og facebook síðu samakanna með minnst 10 daga fyrirvara. Tilkynningu skal einnig senda í tölvupósti til þeirra félagsmanna sem eru með skráð tölvupóstfang hjá samtökunum.  Í fundarboði skal þess sérstaklega getið ef fram hafa komið tillögur til breytinga á lögum þessum. 

Rökstuðningur: Mjög kostnaðarsamt er að senda fundarboð í pósti, kostnaðurinn er kr. 185.920 fyrir þann fjölda sem er nú í félaginu. Um 680 af 830 félagsmönnum eru með skráð virk netföng hjá okkur og þeir sem hafa á annað borð áhuga á starfinu eru duglegir að fylgjast með á samfélagsmiðlum.

 

Lög Einhverfusamtakanna

1. gr.
Félagið heitir Einhverfusamtökin og starfar á landsgrundvelli. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Með einhverfum í lögum þessum er átt við einstaklinga innan einhverfurófsins í víðum skilningi.

3. gr.
Markmið félagsins eru:

  1. Að gæta réttar einhverfra í hvers kyns hagsmunamálum.
  2. Að sjá til þess að einhverfir fái næga og ákjósanlega þjónustu, svo sem greiningu, þjálfun, kennslu, atvinnu og ýmis stuðningsúrræði.
  3. Að stuðla að því að mennta og sérþjálfa fólk í greiningu, þjálfun og umönnun einhverfra.
  4. Að vera vettvangur fyrir gagnkvæman stuðning aðstandenda einhverfra.
  5. Að staðið verði fyrir reglulegri fræðslu fyrir félagsmenn.
  6. Að kynna einhverfu og hagsmunamál einhverfra fyrir stjórnvöldum og almenningi.
  7. Að annast samstarf og tengsl við sambærileg erlend félagasamtök. 

4. gr.
Félagar geta verið; einhverfir, aðstandendur þeirra, fagfólk er sinnir þjónustu við þá og annað áhugafólk um velferð einhverfra.

5. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins, en stjórn þess fer með framkvæmdavald milli aðalfunda.

6. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, sem kjörnir skulu á aðalfundi til tveggja ára í senn. Annað hvert ár skulu kjörnir tveir í stjórn. Skal annar þeirra vera formaður stjórnar og skal hann kjörinn sérstaklega til þeirra starfa. Hitt hvert árið skulu kjörnir þrír til setu í stjórn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti en hvað formann varðar. Hvert ár skal kjörinn einn varamaður í stjórn til tveggja ára.

Enginn má sitja í stjórn sem aðalmaður lengur en þrjú kjörtímabil samfellt.

Stjórn félagsins kveður félagsmenn til starfa í ýmsum nefndum, m.a. fræðslunefnd, skólanefnd, atvinnu- og tómstundanefnd og fjáröflunarnefnd, starfshópum eða sem fulltrúa á vegum félagsins eftir tilmælum aðalfundar og því sem verkefni félagsins gefa tilefni til. Nefndirnar og starfshópar skulu vera stjórn félagsins til ráðuneytis og aðstoðar við þau verkefni sem þeim eru falin af stjórninni.

Stjórn félagsins skal miða að því að viðeigandi fjöldi einstaklinga innan einhverfurófsins sé í nefndum og starfshópum innan félagsins, sem og aðrir aðilar sem eiga einhverfutengdra hagsmuna að gæta hverju sinni, og slíkt hið sama skal gilda um skipanir og tilnefningar út á við að hálfu félagsins.

Aðalfundur kýs til tveggja ára í senn tvo skoðunarmenn ársreikninga.

7. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars eða aprílmánuði ár hvert. Stjórn félagsins skal boða til hans skriflega með minnst 10 daga fyrirvara. Tilkynning í tölvupósti til þeirra sem eru á tölvupóstlista félagsins telst skrifleg boðun.  Í fundarboði skal þess sérstaklega getið ef fram hafa komið tillögur til breytinga á lögum þessum.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar um störf félagsins næst liðið starfsár.
  3. Skýrslur nefnda, starfshópa og fulltrúa á vegum félagsins um störf unnin næst liðið starfsár.
  4. Ársreikningur næst liðins starfsárs lagður fram og borinn upp til samþykktar.
  5. Breytingar á lögum félagsins.
  6. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
  7. Kjör stjórnar og skoðunarmanna ársreikninga.
  8. Önnur mál.

8. gr.
Á aðalfundi ræður kosningu einfaldur meirihluti greiddra atkvæða. Til lagabreytinga þarf þó atkvæði meirihluta atkvæðisbærra manna á fundinum. Tillögur til breytinga á lögum þessum verða því aðeins bornar undir atkvæði að stjórn félagsins hafi fengið þær í hendur fyrir 1. dag marsmánaðar á viðkomandi ári og þeirra hafi verið getið í skriflegu fundarboði.

9. gr.
Stjórn félagsins skal boða til almennra félagsfunda eigi færri en þriggja á hverju starfsári.

Stjórn skal beita sér fyrir því að innan vébanda félagsins starfi hópar aðstandenda einhverfra.

10. gr.
Fjárhagsár félagsins er almanaksárið.

Tekjum félagsins skal einungis varið til framgangs markmiða þess, sbr. 3. gr. Laga þessara, það er til heilla fyrir einhverfa sem heildar.

11. gr.
Verði félaginu slitið skulu eignir þess fengnar félagsmálaráðuneyti til varðveislu, þar til annað félag sem ótvírætt telst arftaki þessa félags, verður stofnað og fær þá það félag fullt eignarhald eignanna.

12. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda á þeim aðalfundi er þau hljóta samþykki. Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma eldri lög félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 18. júní 2020.