Bólusetningar

Ásgeir Erlendur Ásgeirsson líffræðingur
Bólusetningar
 
Markmiðið með þessari grein er að uppfræða fólk um bólusetningar.  Þeir sem vilja kynna sér málin betur bendi ég á ágætar yfirlitsgreinar. Allar þessar greinar eru frá ábyrgum aðilum enda vitna þeir í öruggar heimildir.    Þeir sem vilja kynna sér kenningar um tengsl MMR bólusetningar við einhverfu bendi ég á greinina MMR vaccine controversy http://en.wikipedia.org/wiki/MMR_vaccine_controversy.  Þeir sem vilja kynna sér tengsl bólusetninga almennt við einhverfu bendi ég á yfirlitsgreinina Vaccines and Autism:A tale of shifting hypotheses http://cid.oxfordjournals.org/content/48/4/456.long.  Þeir sem vilja kynna sér sérstaklega hvernig MMR fárið fór af stað bendi ég á grein um Andrew Wakefield http://en.wikipedia.org/wiki/Andrew_Wakefield en hún fjallar um lækninn sem skrifaði greinina Ileal-lymphoid-nodular hyperplasia, non-specific colitis, and pervasive developmental disorder in children http://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140673697110960/fulltext.  Seinna kom í ljós að rannsóknin var fölsuð og Lancet dró greinina til baka.
Þó að gagn bólusetninga gegn hættulegum sjúkdómum sé langtum meiri en sjaldgæfar aukaverkanir hafa þær verið umdeildar frá því þær hófust á 18. öld.  Andstæðingar bólusetninga hafa í um 200 ár haldið fram að bólusetningar séu gagnslausar og hættulegar og að betra væri að auka t.d. hreinlæti. Það virkar reyndar ekki gegn sjúkdómum sem berast í gegnum öndunarveginn.  Einnig telja sumir að skyldubólusetningar brjóti gegn mannréttindum og trúarskoðunum fólks.  Þessi rök eru reyndar mjög algeng enn í dag http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1123944/.  
 
Til hvers er verið að bólusetja?
Markmiðið með bólusetningum er að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma, einkum hjá börnum.  Bólusetningar hindra einnig farsóttir og draga úr hættulegum afleiðingum smitsjúkdóma.  Þeir sem ekki eru bólusettir t.d. ungabörn og langveik börn eru samt varin gegn þessum sjúkdómum vegna hjarðónæmis.  Hjarðónæmi kallast það þegar nánast allir eru með mótefni gegn viðkomandi sjúkdómi þannig að sjúkdómurinn nær ekki að breiðast út.  Þeir sem taka þá ákvörðun að bólusetja ekki t.d. vegna trúarskoðana eru einnig varðir á meðan nógu margir eru bólusettir í kringum þá.  Þeir hafa þá vörn sem var ætluð ungabörnum og langveikum.  Ef þeir sýkjast geta þeir borið sjúkdóma í óvarða einstaklinga eins og ungabörn.  Margir barnasjúkdómar, svo sem mislingar, barnaveiki, kikhósti og lömunarveiki, sjást afar sjaldan nú orðið.  Ungabarnadauði vegna þessara sjúkdóma var þó algengur á 19. öldinni og framan af 20. öldinni.
Fyrir örfáum áratugum gengu sjúkdómar sem gátu haft mjög alvarlegar afleiðingar.  Margir átta sig ekki á alvarlegum afleiðingum þeirra sjúkdóma sem tókst að útrýma með bólusetningum og hafa meiri áhyggjur af hugsanlegum aukaverkunum.  Áður en bólusótt var útrýmt með bólusetningum létust um 1 af hverjum 7 sem fengu veikina.  Talið er að um 500 milljónir manna hafi látist úr bólusótt.  Fyrir aðeins 60 árum var lömunarveiki alvarlegur sjúkdómur.  Aðeins í Bandaríkjunum lamaði hann um 16.000 manns á hverju ári.  Þar sköðuðu rauðir hundar um 20.000 börn á hverju ári þannig að þau fæddust með margskonar fæðingargalla.  Þar sýktu mislingar 4 milljónir á hverju ári og létust af þeim um 3.000.  Bakterían Haemophilus influenza týpa B olli þar um 15.000 tilfellum Hib heilahimnubólgu og urðu margir sjúklinganna fyrir heilaskemmdum auk þeirra sem létust úr sjúkdómnum.  En nú þegar bóluefnin hafa nær útrýmt þessum hættulegu sjúkdómum á Vesturlöndum fara sumir að hafa áhyggjur af öðrum hlutum eins og hvað gæti verið hættulegt í bóluefnunum.  Einnig verður fólk fyrir áróðri andstæðinga bólusetninga sem halda margskonar hlutum fram sem standast enga vísindalega skoðun.  Engin heldur því fram að það sé engar aukaverkanir af bólusetningum.  En hættan af bólusetningum er hverfandi lítil miðað við hættuna sem stafar af þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn.  Til dæmis eru um 1% líkur á því að ungabarn sem fær Kikhósta (pertussis) láti lífið úr þeim sjúkdómi.  En það eru engar líkur á deyja vegna bólusetningar gegn kíkhósta.
Hvaða sjúkdómum er bólusett gegn 
Eftirfarandi fróðleikur er að mestu tekin af vef landlæknis. http://www.landlaeknir.is/  , Wilkipedia og af vef National Health Service www.nhs.uk sem samanstendur af stærsta hluta opinberra heilbrigðisstofnana á Bretlandi.
Barnaveiki (Diphtheria)
Barnaveiki er lífshættulegur bakteríusjúkdómur.  Helstu einkenni eru svæsin hálsbólga með myndun skána, hár hiti og jafnvel öndunarerfiðleikar.  Bakterían framleiðir eitur sem berst út í blóðið og getur það valdið vefjaskemmdum.  Einnig getur bakterían valdið bólgum í hjartavöðva og skemmdum á taugakerfi.  Sjúklingum þarf að gefa sýklalyf gegn sýkingunni og móteirur gegn eitri bakteríunnar.  Barnaveiki er mjög sjaldgæf nú á dögum vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin er gegn henni.  Barnaveiki hefur stungið sér niður í ríkjum fyrri Sovétríkjanna vegna færri bólusetninga.  Barnaveiki var ein helsta dánarorsök barna fyrir tíma bólusetninga.  Dánartíðnin er um 5%  meðal fullorðinna og um 10% meðal barna.  Sjá nánar. http://en.wikipedia.org/wiki/Diphtheria  http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13108/Barnaveiki_(Diphtheria) , og
 
Stífkrampi (Tetanus)
Stífkrampi stafar af bakteríu sem er til staðar víða í náttúrunni svo sem í jarðvegi og húsdýraskít.  Bakterían smitast í gegnum sár og framleiðir taugaeitur sem hefur áhrif á vöðva þannig að þeir herpast saman og verða stífir og getur það leitt til dauða ef ekkert er að gert.  Til er móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess, en eina örugga vörnin er bólusetning.  Stífkrampi er orðinn mjög sjaldgæfur á Vesturlöndum vegna bólusetninga.
 
Kikhósti (Pertussis)
Kikhósti (almenningur þekkir hann sem Kíghósta) stafar af bakteríu (Bordetella pertussis). Bakterían er mjög smitandi og berst milli manna með úðasmiti.  Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst.  Sjúkdómurinn stendur yfir í um sex vikur.  Sjúkdómurinn er lífshættulegur ungabörnum.  Þau fá áköf hóstaköst með einkennandi soghljóði.  Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma í sjúkdómsferlinu.  Með bólusetningum er hægt að verja börnin og er mikilvægt að byrja að bólusetja þau ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum.  Bólusetningum gegn kikhósta var hætt í Svíþjóð 1979 en það leiddi til faraldra 1983 og 1985 svo þær voru teknar upp aftur.  Vegna minkandi þáttöku í bólusetningum er Kikhósti farinn að breiðast aftur út í Bandaríkjunum með slæmum afleiðingum. Sjá nánar:  http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12513/Kikhosti_(Pertussis) og 
 
Mænusótt (Polio)
Mænusótt eða lömunarveiki stafar af veiru sem getur borist í menn með saurmengun, fæðu og vökva og hugsanlega einnig með úðasmiti. Sýkingin er einkennalaus í um 90% tilfella.  Í um 1% tilfella veldur sýkingin skemmdum á miðtaugakerfi og getur valdið margskonar lömunum. Vegna framfara í hreinlæti á seinustu öld smitaðist fólk oft seinna en áður.  Það leiddi til þess að fólk sýktist með alvarlegri einkennum eins og lömun.  Fram á miðja seinustu öld óttaðist almenningur mjög þennan sjúkdóm enda gat hann lamað fólk eða valdið öndunarbilun.  Með bólusetningum hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum.  Lömunarveiki gengur þó á svæðum þar sem bólusetningar eru bannaðar af öfgamönnum eins og í norðurhluta Nígeríu, auk einangraðra svæða í Afganistan og Pakistan sem eru á valdi Talibana.
 
Haemofilus influenzae sjúkdómur af gerð b (Hib)
Haemofilus influenzae b er baktería sem getur orsakað alvarlega sjúkdóma, svo sem heilahimnubólgu, bólgu í hjartavöðva. barkabólgu, lungnabólgu, liðbólgur og vefjasýkingum.  Þá getur Hib valdið blóðsýkingum sem eru lífshættulegar. Sérstaklega er bakterían hættuleg ungum börnum.  Bólusetning gegn þessari bakteríu hefur verið mjög árangursrík.  Frá því byrjað var að bólusetja gegn Hib hér á Íslandi árið 1989 hefur ekkert tilfelli greinst af heilahimnubólgu eða öðrum alvarlegum sýkingum af hennar völdum, en fyrir þann tíma greindust u.þ.b. 10 börn á ári með heilahimnubólgu af völdum Hib.
 
Pneumókokkar (pneumococcus)
Pneumókokkar eru margar bakteríutegundi sem geta valdið misalvarlegum sjúkdómum.  Í vægum tilfellum valda þessar bakteríur sýkingum í berkjum, eyrnabólgum og kinnholusýkingum,  Í alvarlegri tilfellum valda þær blóðsýkingum, sýkingum í beinum, lungnabólgu og heilahimnubólgu.  Hættulegastir þessara sjúkdóma eru heilahimnubólga og blóðsýkingar.  Áður en bólusetning hófst greindust árlega um 11 börn hér á landi með slíkar sýkingar.  Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% þessara sjúkdóma.  Einnig má ætla að bólusetningin dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum og lungnabólgum hjá ungum börnum. 
http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13098/Pneumokokkar og http://www.nhs.uk/conditions/Pneumococcal-infections/Pages/Introduction.aspx
 
Meningókokkar C (meningococcus c)
Fram til ársins 2003 greindust hér á landi um 10–15 einstaklingar árlega með sjúkdóm af völdum meningókokka C auk hópsýkinga þar sem mun fleiri sýktust.  Aðallega var hér um að ræða börn yngri en 6 ára og 10-18 ára.  Sýkingarnar af völdum menincococca C eru mjög alvarlegar og geta valdið heilahimnubólgu og blóðsýkingum.  Um 10-20% þeirra sem sýkjast deyja og önnur 20% fá alvarleg örkuml.  Í lok árs 2002 hófst bólusetning gegn meningókokkum C hér á .  Síðan bólusetningin hófst hefur enginn bólusettur einstaklingur hér á landi greinst með meningókokka C og verulega hefur dregið úr sýkingunni hjá óbólusettum.  Bólusetningin hindrar hins vegar ekki sýkingar af völdum annarra meningókokka.
http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13087/Meningokokkar og http://www.wales.nhs.uk/sites3/page.cfm?orgId=457&pid=32261 
 
Mislingar (Morbilli, measles)
Mislingar stafa af veiru sem er mjög smitandi og berst milli manna með úðasmiti.  Einkenni eru mismikil, en sjúkdómurinn getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.  Dánarhlutfall er um 0,3% meðal annars heilbrigðra Vesturlandabúa en er mun hærra í fátækari þjóðfélögum og meðal ónæmisbældra er dánartíðni allt að 30%.  Um það bil 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla, svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.  Þegar mislingar gengu á Íslandi á 19 öld létust margir af þeirra völdum.  Þeir einir sem stóðu uppi voru nógu gamlir til að hafa fengið mislinga áður.  Mislingar eru það smitandi að þeir útrýma sjálfum sér í litlum þjóðfélögum.  Þeir smita alla sem eru næmir og hverfa svo. Mislingar eru smitandi í minnst 2 tíma eftir að þeir berast út með öndun sjúklings.  Þess eru nokkur dæmi að einstaklingar smitaðir af mislingum hafi smitað aðra við það að fara til læknis.
http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13089/Mislingar_(Morbilli,_measles) http://en.wikipedia.org/wiki/Measles 
 
Hettusótt (Parotitis epidemica, mumps)
Hettusótt stafar af veiru og er oftast mildur sjúkdómur  Hettusótt getur þó valdið heilahimnubólgu, heyrnaskerðingu og bólgu í eggjastokkum eða eistum.
http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12485/Hettusott_(Parotitis_epidemica,_mumps) http://www.nhs.uk/conditions/mumps/Pages/Introduction.aspx
 
Rauðir hundar (Rubella)
Rauðir hundar er vægur veirusjúkdómur hjá börnum, en hann getur valdið fósturskaða ef ófrískar konur sýkjast á fyrstu 20 vikum meðgöngu. Fósturskaði getur verið heyrnarskerðing, blinda, vansköpun, vaxtarskerðing og jafnvel fósturlát.  Með bólusetningu allra í þjóðfélaginu er hægt hindra faraldra af rauðum hundum og koma í veg fyrir að konur á barneignaraldri smitist.
http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13099/Raudir_hundar_(Rubella) og http://www.nhs.uk/Conditions/Rubella/Pages/Introduction.aspx 
 
HPV (Human Papilloma Virus)
HPV er samheiti yfir margar tegundir veira sem geta valdið vörtum.   Papillomaveirur sýkja húð og flest yfirborðssvæði líkamanns eins og á kynfærum og í munni.  Flestar tegudnir eru skaðlitlar en nokkrar tegundir kynfæravartna geta valdið frumubreytingum sem geta leitt til leghálskrabbameins.  Kynfæraýkingar af völdum HPV eru mjög algengar.  Hér á landi eru stúlkur bólusettar gegn algengum HPV sem geta valdið leghálskrabbameini og er það talið að það veiti um 70% vörn.  Höfundur telur að bólusetja ætti einnig drengi til að draga úr hættu af þessum sjúkdómi.  http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item16491/HPV_veiran_og_bolusetning_gegn_leghalskrabbameini og http://www.nhs.uk/chq/Pages/2611.aspx 
 
Tengsl MMR bóluefnis og einhverfu
Þrjár meginkenningar hafa verið settar fram um tengsl bólusetninga við einhverfu:
1) Blanda af mislingum, hettusótt og rauðum hundum (rubellu) bóluefni valdi einhverfu með því að valda skemmdum á þörmum.  Þannig eiga prótein einingar sem valda skemmdum á heilavef að komast inn í líkamann.
2) Thimerosal (ethylmercury) sem er lífrænt efnasamband með kvikasilfri er bakteríudrepandi efni í sumum bóluefnum.  Kenningin gengur út á að það sé eitrað miðtaugakerfinu.
3) Með því að gefa bóluefni þriggja veira (MMR) á sama tíma verði ónæmiskerfið borið ofurliði og það valdi skemmdum á taugavef.
Þann 28. febrúar 1998 birti meltingarlæknirinn Andrew Wakefield ásamt 12 öðrum meðhöfundum greinina Ileal-lymphoid-nodular hyperplasia, non-specific colitis, and pervasive developmental disorder in children (http://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(97)11096-0/fulltext).  Í greininni lýsa höfundar 12 börnum með þroskaraskanir.  Foreldrar eða læknar töldu að 8 barnanna hafi fengið einhverfu innan mánaðar eftir að þau voru bólusett með MMR bóluefninu.  Höfundar greinarinnar settu börnin í ristilspeglun og tekin voru vefjasýni úr þörmum.  Höfundar lýstu bólgnum eitlum í þörmum samkvæmt ristilspeglun.  Af þessu drógu Andrew Wakefield og félagar þá ályktun að MMR bóluefni valdi bólgum í meltingarvegi sem leiði til þess að lítil prótein (peptíð) kæmust í gegnum þarmavegginn.  Þaðan áttu próteinin að komast til heila þar sem þau höfðu áhrif á þroskunn heilans.  Seinna lýsti Andrew Wakefield nýju heilkenni sem hann kallaði Autistic Enterocolitis.  Þetta heilkenni er reyndar ekki til.  Rannsóknarblaðamaðurinn Brian Deere fletti ofan af svikum Andrew Wakefields og félaga árið 2004 í klukkutíma löngum þætti á Channel 4.  Þar kom í ljós að Andrew Wakefield var sjálfur að vinna að mislingabóluefni.  Seinna komst Brian Deer að því að Andrew Wakefield hafði verið að vinna fyrir lögmenn sem voru í málaferlum gegn bóluefnaframleiðendum áður en MMR fárið byrjaði.  Einnig var Andrew Wakefield að vinna að prófefnum til að greina þennan sjúkdóm (Autistic Enterocolitis) sem hann þóttist hafa skilgreint.  Bjóst hann við talsverðum tekjum af sölu þessara prófefna.  Eftir að þetta komst upp drógu flestir meðhöfundar þátt sinn til baka í greininni.  Þá kom í ljós að Andrew Wakefield og félagar höfðu sett börnin í gegnum læknarannsóknir eins og ristilspeglun og töku vefjasýna að nauðsynjalausu og án nokkurra leyfa.  General Medical Council (GMC) hóf sjálfstæða rannsókn á þessu máli og þætti Andrew Wakefields og tveggja annara sem ekki höfðu tekið sinn þátt í rannsókninni til baka.  GMC úrskurðaði 2010 að Wakefield og félagar hafi unnið óheiðarlega og af tilfinningalausri lítilsvirðingu gagnvart börnunum í rannsókninni og framkvæmt ónauðsynlegar og óþægilegar rannsóknir á þeim án leyfis. Einnig taldi GMC að Wakefield þurfi að skýra margskonar hagsmunaárekstra.  Tímaritið Lancet hefur dregið greinina til baka og telst þessi rannsókn nú vera ein af allra stærstu fölsunum í sögu vísindanna (sjá nánar á http://briandeer.com/mmr/lancet-deer-1.htm).  Vegna greinar Andrew Wakefield og félaga hefur komið upp andstaða sem hefur dregið það mikið úr bólusetningum í sumum samfélögum að fram hafa komið faraldrar alvarlegra sjúkdóma sem leitt hafa til dauða.  Til dæmis eru mislingar sem áður voru taldir útdauðir í Evrópu farnir að stinga sér niður með alvarlegum afleiðingum http://en.wikipedia.org/wiki/Measles_outbreaks_in_the_21st_century .
Ýmsir gallar voru á rannsókn Wakefield og félaga.  Fyrst og fremst var enginn viðmiðunarhópur í rannsókninni.  Á þessum tíma var 1 af hverjum 2000 börnum með einhverfugreiningu og um 50 þúsund 1-2ja ára börn voru bólusett á hverju ári.  Miðað við það ættu um 25 börn að fá einhverfugreiningu á ári hverju stuttu eftir bólusetningu vegna tímasetningar þeirra.  Ristilspeglunin og mat á þroska barnanna þurfa að vera blind þ.e. rannsakandinn má ekki vita fyrirfram hvorum hópnum viðfangsefnið tilheyrir.  En í tilraun Andrew Wakefield og félaga var gögnum safnað mjög skipulega.  Í sumum einhverfu barnanna voru engin merki um einkenni frá meltingarvegi.  Það dregur úr gildi kenningarinnar um að heilaskemmandi peptíð komist inn í blóðrásina.  Ekki hefur verið sýnt fram á að mislinga-, hettusóttar- og rauðuhundaveirur úr bóluefni hafi valdið bólgum í meltingarvegi þannig að peptíð komist inn í gegnum þarmavegginn.  Aldrei hefur verið sýnt fram á að heilaskaðandi peptíð fari í gegnum þarmaveggi til heila.
Þó að engin gögn styddu tengsl MMR bólusetningar við einhverfu var farið í nokkrar faraldsfræðilegar rannsóknir til að rannsaka hvort tengsl væru þarna á milli.
 
Table 1
Studies that fail to support an association between measles-mumps-rubella vaccine and autism.
Vegna þess að svo stórir hópar höfðu verið bólusettir með sömu bóluefnunum var auðvelt að gera stórar og mjög áreiðanlegar samanburðarrannsóknir.  Auk þess var frekar stuttur tími liðinn frá því MMR bóluefnið var tekið upp í sumum löndum og því auðvelt að gera samanburð þar á milli.  Rannsóknarhópar (heimildir 5-11) í nokkrum löndum framkvæmdu rannsóknir á því hvort MMR bóluefnið valdi einhverfu. Í slíkum rannsóknum þarf að bera saman í hópum hlutfall bólusettra og fjölda einhverfra í hverjum hópi.  Samkvæmt þessum niðurstöðum var ekki hægt að sýna fram á tengsl MMR bóluefnisins og einhverfu.  Einnig voru þessar niðurstöður í mótsögn við kenningu Andrew Wakefield um nýja tegund af einhverfu Autistic enterocolitis.  Einnig voru framkvæmdar 4 rannsóknir (heimildir 12-15) á því hvort einhverfan sé tengd MMR bólusetningunni.  Þá voru bornir saman hópar einhverfra einstaklinga og viðmiðunarhópar.  Ekki fundust nein tengsl þar á milli við MMR bólusetninguna.  Í Finnlandi voru bornir saman árgangar frá 1982-1996, samtals 1,8 milljónir manna.  Í þessum hópi fékk 31 barn bólgur í meltingarvegi og var ekkert þeirra einhverft (heimildir 16-17).  Þeir sem vilja kynna sér þetta betur bendi ég á greinina Vaccines and Autism: A Tale of Shifting Hypothesis. Þar er hægt að finna allar þessar rannsóknir. http://cid.oxfordjournals.org/content/48/4/456.long
 
Tengsl Thimerosal og einhverfu
Thimerosal-50% ethylmercury er bakteríudrepandi efni sem hefur verið notað í fjölskammta bóluefnum með góðum árangri í yfir 50 ár. Thimerosal er ekki notað í lifandi bóluefni eins og MMR.  Bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA) ákvað 1997 að mælt verði kvikasilfursmagn í öllum lyfjum og matvælum.  Það kom í ljós að börn gætu fengið allt að 187,5 µg (míkrógrömm þ.e. 187 þúsundustu hluta úr grammi).  Andstæðingar bóluefna hafa eitthvað misskilið niðurstöðurnar.  Robert F. Kennedy Jr. skrifaði t.d. í tímaritið Rolling Stone fræga grein Deadly Immunity þar sem höfundur hundraðfaldaði kvikasilfursmagnið.  Þessi grein hefur reyndar verið dregin til baka af Rolling Stone tímaritinu og birt nokkrar leiðréttingar en samt er ennþá vitnað í vitleysuna.  Þrátt fyrir að engar vísbendingar væru um skaðsemi þessa magns af kvikasilfri var hætt árið 1999 að nota thimerosal í öll bóluefni handa ungabörnum.  Reyndar eru áhrif kvikasilfurs á taugakerfi mjög ólík einhverfueinkennum.  Einkenni kvikasilfurseitrunar í börnum eru breytingar í hreyfingum, tali, hegðun og skynjun sem er mjög ólík því sem gerist hjá einhverfum.  Ef kvikasilfrið hefði haft þessi áhrif þá hefði einhverfa átt að minnka mikið síðan þá.  Þó að kenningin um kvikasilfurseitrun í bóluefnum hafi valdið einhverfu hafi verið mjög ólíkleg, hafa verið gerðar 7 rannsóknir á tengslum þar á milli.
 
Table 2 
Studies that fail to support an association between thimerosal in vaccines and autism.
 
Of mörg bóluefni
Þegar ekki var hægt að sýna fram á tengsl MMR bóluefnisins eða thimerosal geymsluefnisins við einhverfu komu fram nýjar tilgátur.  Helsta þeirra var að með því að gefa of mörg bóluefni í einu átti ónæmiskerfið að vera borið ofurliði og það kæmi af skemdum í miðtaugakerfi í viðkvæmum einstaklingum.  Nokkrir vankantar eru í þeirra tilgátu að börn fái of mörg bóluefni of snemma sem beri óþroskað ónæmiskerfi þeirra ofurliði og valdi skemmdum á taugakerfi eins og gerist í sjálfsofnæmissjúkdómum.  Bóluefni bera alls ekki ónæmiskerfið ofurliði.  Þó að ónæmiskerfi ungra barna sé óþroskað getur það brugðist vel við mörgum sýkingum í einu.  Og þó bóluefnum hafi fjölgað síðustu áratugi þá hafa orðið það miklar framfarir í læknavísindum að mótefnavökunum (antigenunum) hefur fækkað mikið.  Nú er hægt að framleiða bóluefni með hreinsuðum mótefnavökum sýkilsins (antigenum) í stað þess að bólusetja með sýklinum sjálfum.  Bóluefnin eru einnig aðeins lítill hluti af því áreiti sem ónæmiskerfi ungabarna verður fyrir.  Talið er t.d. að börn verði fyrir 4-6 veirusjúkdómum á fyrsta ári.  Þannig verður ónæmiskerfið alltaf fyrir miklu fleiri mótefnavökum (antigenum) með því að verða fyrir sýkingum heldur en með bólusetningum.  Bólusetningar veikja heldur ekki ónæmiskerfið.  Bólusett börn og óbólusett eru jafn næm gegn sjúkdómum sem ekki er hægt að koma í veg fyrir með bólusetningum.  En þeir sem hafa verið bólusettir fá þá ekki viðkomandi sýkingar né heldur tækifærissýkingar sem koma oft í kjölfarið.  Einhverfa myndast heldur ekki vegna ónæmiskerfisins.  Ólíkt sjálfsónæmissjúkdómum eins og MS sjúkdómnum eru engin merki um skemmdir eða bólgur í miðtaugakerfi hjá einhverfum.
 
Lokaorð
Samkvæmt öllum þessum þessum rannsóknum eru engin tengsl milli bólusetninga og einhverfu.  Vegna fársins í kringum MMR bóluefnið sem varð til í kringum sviksamlega grein Andrew Wakefield hefur dregið mjög úr bólusetningum.  Það hefur leitt til þess að sjúkdómum sem hafði verið útrýmt víða eru aftur farnir að breiðast út.  Nokkur dauðsföll hafa verið rakin til þessarar greinar.  Bólusetningar eru einfaldasta og öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu þessara sjúkdóma.  Bólusetningin er til að verja þann bólusetta fyrir viðkomandi sjúkdómi og koma í veg fyrir að hann beri þá sjúkdóma til óvarðra einstaklinga eins og ungabörn og langveik börn.  Þeir sem taka þá ákvörðun að bólusetja ekki njóta samt þeirrar verndar sem var ætluð ungabörnum og langveikum.  Sú vernd virkar þangað til það margir eru óbólusettir að sjúkdómar geta breiðst út.  Aðrir vilja ekki bólusetja vegna þess að þeir trúa áróðrinum frá andstæðingum bólusetninga.  Enginn heldur því fram að bólusetningar séu alveg skaðlausar.  En gagnsemi bólusetninga er langtum meiri en hugsanlegar aukaverkanir.