Besti vinur mannsins

Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor, Menntavísindasviði HÍ - Guðbjörg Snorradóttir, þroskaþjálfi - Helga María Gunnarsdóttir, þroskaþjálfi

"Besti vinur mannsins“ 
Aðstoð hunda í daglegu lífi barna með einhverfu

Greinin er unnin út frá BA-verkefni Guðbjargar Snorradóttur og Helgu Maríu Gunnarsdóttur í þroskaþjálfafræðum undir leiðsögn Ingibjargar H. Harðardóttur, lektors, Menntavísindasviði, HÍ. Í greininni eru dregin fram nokkur atriði en verkefnið í heild sinni er hægt að nálgast á bókasafni Menntavísindasviðs HÍ og á eftirfarandi slóð: http://hdl.handle.net/1946/9412

Á undanförnum árum hefur greiningum á einhverfu fjölgað og er talið að um einn á móti hverjum 150 einstaklingum lifi með einhverfu. Einkenni einhverfu koma skýrast í ljós þegar litið er til samskipta og hegðunar einstaklingsins. Sýnt hefur verið fram á fjölmargar leiðir til að draga úr einkennum einhverfunnar. Á Íslandi er aðallega stuðst við aðferðir hagnýtrar atferlisgreiningar og skipulagðrar kennslu í þjálfun og meðferð með börnum með einhverfu. Erlendis hafa þessar þjálfunar- og meðferðaleiðir einnig verið notaðar ásamt leiðum þar sem hundar eru í aðalhlutverki.

Hundaunnendur geta eflaust sammælst um að hundurinn veitir manninum ánægju, félagsskap og hlýju. Niðurstöður rannsókna styðja álit þeirra og hafa leitt í ljós að hundar auka tækifæri til samskipta og geta veitt eigendum sínum tilfinningalegt öryggi með sinni skilyrðislausu ást. Þessir eiginleikar hunda eru meðal annars ástæðan fyrir því að þeir hafa fengið mikilvæg hlutverk í gegnum tíðina, svo sem að veita einstaklingum með fötlun og fjölskyldum þeirra aðstoð í daglegu lífi.

Höfundar telja mikilvægt að kynna hvers vegna hundar geta verið vænlegur kostur sem aðstoð í daglegu lífi fyrir börn með einhverfu. Þannig viljum við stuðla að fjölbreyttara vali fyrir foreldra barna með einhverfu þegar tekin er ákvörðun um hvers konar þjálfun eða meðferð eigi að styðjast við í daglegu lífi barnsins. Í ritgerðinni er sagt frá íslenskum og erlendum rannsóknum sem hafa það markmið að lýsa áhrifum þess að nota hunda með börnum með einhverfu, að undanskilinni einni rannsókn sem hefur það markmið að lýsa áhrifum þess að nota hunda með eldri borgurum sem glíma við minnissjúkdóma. Einnig eru sagðar reynslusögur foreldra barna með einhverfu sem hafa nýtt sér fyrrnefnd úrræði.

Leitast er við að svara spurningunum „Hvernig geta hundar aðstoðað börn með einhverfu í daglegu lífi?“ og „Hvaða áhrif getur aðstoð hundanna haft á barnið sjálft og fjölskyldu þess?“.

Greint er á milli hunda út frá hlutverkum þeirra og þeirri þjónustu sem þeir geta veitt, svo sem aðstoðarhundar (e. assistance dogs), þjónustuhundar (e. service dogs) og meðferðarhundar (e. therapy dogs). Aðstoðarhundar er yfirleitt notað sem yfirheiti á hundum sem veita fólki með fötlun einhvers konar aðstoð. Þeir búa með og starfa fyrir eigendur sína og veita þannig stöðugt líkamlegan, andlegan og tilfinningalegan stuðning.

Þegar aðstoðarhundarnir fá svo sérstök verkefni og eiga að framkvæma ákveðnar athafnir fá þeir sérheiti, svo sem blindrahundar (e. guide dogs), heyrnarhundar (e. hearing dogs) eða hundar sem veita félagsskap (e. companion dogs). Þjónustuhundar eru hundar sem aðstoða fólk með sérþarfir, aðrar en voru taldar upp hér að ofan. Til dæmis aðstoða þjónustuhundar einstaklinga með flogaveiki, þeir hjálpa til við að auka félags- og tilfinningaþroska, aðstoða einstaklinga sem eru í hjólastólum ásamt því að aðstoða einstaklinga með einhverfu.

Þegar hundar eru notaðir í meðferðum eru yfirleitt notaðir hundar sem eru gæludýr eigenda sinna og eru þeir þjálfaðir í að heimsækja stofnanir með eigendum sínum, til dæmis skóla, sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Hundarnir veita tilfinningalegan stuðning og geta einnig hjálpað til við líkamlega örvun. Meðferðarhundar taka meðal annars þátt í geðmeðferðum, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun og/eða veita félagslegan og tilfinningalegan stuðning. Ekki er um að ræða eitt dýr fyrir hvern einstakling sem heimsóttur er heldur kynnast þeir einum eða fleirum hundum á meðan meðferð stendur.

Greint er á milli meðferðarformanna „Meðferð með hjálp dýra“ (e. animal assisted therapy) og „Virkni með hjálp dýra“ (e. animal assisted activity). Þegar beitt er „Meðferð með hjálp dýra“ þurfa dýrin og eigendur þeirra sérstaka þjálfun, auk þess sem meðferðarsérfræðingur (e. therapist) setur markmið fyrir hverja heimsókn og skráir niður framgang og árangur meðferðarinnar.

„Virkni með hjálp dýra“ byggir hins vegar á því að gæludýr heimsækja einn einstakling eða hóp en ekki er sérstakt markmið með hverri heimsókn, né skráður framgangur. Meðferðin fer fram við ýmsar aðstæður og sérstaklega þjálfað fagfólk og/eða sjálfboðaliðar vinna með dýrunum. Markmiðið er að auka lífsgæði með sambandi manna og dýra. Hér á landi er útfærsla af þessu meðferðarformi eitt af verkefnum heimsóknarvina Rauða kross Íslands. Þar eru hundar í aðalhlutverki og fara þeir í reglubundnar heimsóknir á stofnanir og heimili ásamt eigendum sínum. Gestgjafar (þeir sem verið er að heimsækja) eru meðal annars langveik börn, eldri borgarar og einstaklingar með einhvers konar fötlun.

Niðurstöður rannsókna hafa meðal annars sýnt fram á að börn með einhverfu hegða sér mismunandi eftir því hvort þau eru í samskiptum við menn eða gæludýr. Samskiptin við gæludýrin geta gert það að verkum að einkenni einhverfunnar minnka og lífsgæði barnanna aukast. Þau sýna gæludýrunum hegðun sem þau sýna mannfólkinu sjaldan eða jafnvel aldrei. Í nánd við gæludýrin getur dregið úr ótta, kvíða, ofvirkni og óviðeigandi hegðun. Félagsleg hegðun barnanna eykst og þau sýna gæludýrum óvenju mikla samúð og alúð. Þá hafa niðurstöður rannsókna einnig leitt í ljós að börn með einhverfu eiga það til að leita eftir huggun hjá gæludýrunum með snertingu.

Ekki er vitað ástæðu þessara niðurstaðna en tilgátur hafa verið settar fram um að börn með einhverfu eigi auðveldara með að eiga í samskiptum við dýr en við mannfólkið. Tungumál er flókið fyrirbæri og hindrar í mörgum tilfellum börn með einhverfu í samskiptum við önnur börn eða fullorðna. Samskipti við dýr byggja ekki á orðaskiptum og eru því auðveldari fyrir börnin. Einnig er hegðun gæludýranna fremur einföld og getur ekki haft mismunandi merkingu, því þarf ekki að lesa í svipbrigði, raddblæ eða merkingu orða.

Engin ein meðferð hentar öllum börnum með einhverfu en áhugavert er hve mörg hlutverk þjónustuhundar geta tekið að sér eftir því hvaða barn þeir þjónusta og fá hundarnir þjálfun í samræmi við viðkomandi hlutverk. Eftirfarandi eru dæmi um möguleg hlutverk þjónustuhunda fyrir börn með einhverfu:

1) Að koma í veg fyrir að barnið hlaupist á brott: Fyrir marga foreldra sem eiga barn með einhverfu er aðaláhyggjuefnið að barnið hlaupist óvænt á brott í umhverfi sem getur verið því hættulegt. Þegar þjónustuhundur er notaður í þessum tilgangi er hann oft bundinn á einhvern hátt við barnið og foreldrið heldur í tauminn. Hundurinn getur einnig verið þjálfaður til að stoppa eða hindra barnið í að hlaupast á brott.

2) Að láta foreldra vita ef barnið hefur hlaupist á brott eða hegðun þess veldur skaða: Hundurinn er þjálfaður til þess að láta foreldra eða aðra aðstandendur vita ef barnið er að reyna að komast í burtu eða ef það er þegar farið. Hann getur einnig látið vita ef barnið getur eða er að skaða sig, svo sem ef það klifrar á húsgögnum eða sýnir sjálfskaðandi hegðun, til dæmis slá höfði í vegg.

3) Að bregðast við flogum: Þjónustuhundur sem hefur það hlutverk að bregðast við flogum lætur vita þegar barnið er í flogi og/eða kemur í veg fyrir að barnið geti skaðað sig í floginu. Hundurinn leggst þá ofan á barnið og kemur þannig í veg fyrir að það rekist í hluti eða veggi. Sumir þjónustuhundar hafa byggt upp þann eiginleika að skynja yfirvogandi flog og geta þá látið nærstadda og barnið sjálft vita áður en flogið á sér stað.

4) Að taka þátt í björgunaraðgerðum: Sumir þjónustuhundar fyrir börn með einhverfu eru þjálfaðir sérstaklega til þess að leita uppi börn sem hafa náð að strjúka.

5) Að aðstoða barnið við að halda ró sinni og veita því félagslegan stuðning: Nærvera hundsins gerir það að verkum að barnið er rólegra og auðveldara verður að meðhöndla bræðisköst. Einnig veitir hundurinn öryggi þegar barnið stendur frammi fyrir félagslegum áskorunum og getur verið eins konar félagslegur milliliður í samskiptum við annað fólk

Lítið er um að hundar séu nýttir sem aðstoð fyrir börn með einhverfu hér á landi, en þó eru þess dæmi eins og lesa má um í ritgerðinni. Nýlega voru sett lög um þjónustuhunda sem auðveldað geta einstaklingum sem vilja reyna þessa leið. Þetta er þó ekki töfralausn frekar en aðrar aðferðir sem notaðar eru í þjálfun og meðferð barna með einhverfu, en jákvæðar niðurstöður rannsókna og reynslusögur foreldra sýna að aðstoð hunda fyrir börn með einhverfu er raunhæfur kostur í íslensku samfélagi.