18 ára og hvað svo?

Einhverf börn eru á hraðleið að verða 18 ára. Hvað tekur þá við? Hvernig líður foreldrunum? Endalausar áhyggjur af framtíð barnsins? Kemur ekki á óvart.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, M.A. og á einhverfurófi.

Að verða fullorðinn og vera á einhverfurófi er efni í sér ráðstefnu, bók og bíómynd. Því miður yfirleitt dálítið sorglega bíómynd sem þyrfti ekki að vera sorgleg ef heimurinn hefði meiri skilning og þekkingu á einhverfu.

T.d. hvar á maður að ná sér í maka, - ekki á diskóteki með blikkandi ljósum, það er ljóst. Það er bara ávísun á flogakast eða eitthvað þaðan af verra.

Hægt er að lauma sér í sérvitringa gönguferð með Ferðafélaginu eða Útivist, eða taka upp eitthvað sérstakt áhugamál, eins og seinni heimstyrjöldina, eða steingervingasöfnun og reyna að komast í klúbb gallharðra áhugamanna.

Eða lauma sér inn á þægilega ópersónulega bandaríska stefnumótasíðu í tölvunni sem er með háþróað forrit sem flokkar fólk saman eftir persónuleikaprófum og greind í þeirri von að kannski Bill Gates sé að verða á lausu? Vandamálið að maður gæti líka hitt raðmorðingja gegnum slíka síðu. Það er beinlínis stórhættulegt að vera til, sérstaklega þegar maður leggur út á ókunna braut ástarlífsins.

En í alvöru - hvernig blasir veröld fullorðinna við frá sjónarhóli hins einhverfa unglings sem er að stíga sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin?

Það er svo stór spurning að ég gæti skrifað heila bók.

Í fyrsta lagi er fullorðið fólk rosalega skrýtið. Það fer eftir fullt af allskonar reglum og viðmiðum og hefur miklar áhyggjur af einhverju sem kallast virðing fjölskyldunnar eða "respectability". Það felur t.d. í sér að maður má ekki missa rjómatertu á kjólinn hjá frænku sinni í fermingarveislu. Og það er líka dónalegt að fá sér 5 sinnum á diskinn, jafnvel þótt heiti rétturinn sé alveg sjúklega góður. Og svo má maður ekki tala of mikið í fermingarveislunni og maður má heldur ekki tala of lítið því þá segja allir að maður sé þumbaralegur. Og það má ekki tala í marga klukkutíma um Terry Pratchett eða Paradísamissi Miltons. Hvort tveggja er örugg leið til að gera ættingjana gráhærðari. Svo ef maður fer að tala of mikið um dauðann af því að maður er kominn með slíkt áhugamál, þá halda allir að maður sé þunglyndur. Þá endar maður inni á teppi hjá geðlækni sem horfir á mann samúðarfullu en skilningsvana augnaráði. Margir læknar eru nefnilega dálítið einhverfir sjálfir og vita því lítið um einhverfu og vilja alls ekki greina sjálfa sig, hvað þá aðra. Eins og stór hluti mannkynsins, langar þá mest til að spila golf.

Það er hrikalega erfitt að verða fullorðinn og að vera fullorðinn þegar maður er einhverfur. Kröfurnar sem eru gerðar til manns breytast skyndilega og allt fer á skjön.Það er beinlínis fyndið og væri fyndið ef líf manns væri skáldsaga en ekki raunverulegi raunveruleikinn sem er aldrei fyndinn. Þessvegna og því miður verður þetta oft að hreinni tragedíu.

Jæja, segir fólk við mann. Jæja hvað segir maður á móti og byrjar að svitna. Ætlar þú ekki að skrá þig hjá Capacent og sækja um vinnu bráðlega? Þú ert jú komin með 4 háskólagráður og ættir nú að geta farið að gera eitthvað (loksins). – En………………………. ég á ennþá eftir að taka doktorinn?????  

-          Hættu að fela þig í þessum ólukkans skóla. Þú verður að horfast í augu við raunveruleikann og raunveruleikinn er íslenskt atvinnulíf í allri sinni dýrð, með dröktum, jakkafötum og öllu. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, dæmigerðir íslenskir vinnustaðir með kjaftakerlingum, kaffistofum, yfirvinnu, gæðastjórnun, öryggisttjórnun, einelti og öllu.

-           

-          NEIIIIIII segir þú í skelfingu af því að þú veist þegar og hefur alveg tilfinningu fyrir því að þú átt ekki séns á dæmigerðum íslenskum vinnustað sem er fullur af vinnuölkum sem eru í miskunnarlausri samkeppni við hvorn annan við að skapa sér starfsframa samkvæmt fullt af óskiljanlegum reglum um virðingu og „respectability“. 

EN ÉG SKIL EKKI REGLURNAR!  Hrópar þú í örvæntingu um leið og þú ert þvingaður til að fara í fínu fötin og mæta í atvinnuviðtal. Er ekki bara hægt að vinna við að spila tölvuleiki, svara spurningakeppnum eða starfa sem sérfræðingur í Star Trek og Stjörnustríði?

Og ef maður er svo heppinn að fá vinnuna, þá þarf maður að reyna að halda henni. Halda fundi, fara eftir verklagsreglum, skilja samskipti, brosa á réttum stöðum, AAAAAaaaargggghhh.

Ekki skrýtið þótt ég hafi „misst vinnuna“ þrisvar sinnum í röð. Hey – þú gleymdir að halda fundi? Heldurðu að þú sért einhver einleíkari hér? Maður á að hafa samskipti við samstarfsmennina, við erum teymi skilurðu. TEYMI!!!!

Ég skil ekki.

Ég er ennþá að sumu leyti rosalega klár einhverfur 12 ára krakki sem er að leika fullorðna manneskju. Ég er orðin svo góður leikari að ég á skilið að fá Óskarinn, mörgum sinnum. En vegna þess að ég er misþroska í raun og veru er ég stundum bara 12 ára þótt ég sé 49 ára á pappírunum og eldist alltaf ótrúlega mikið þegar ég horfi í spegilinn.

Hvaða miðaldra kerling er þetta eiginlega í þessum spegli????

Úps..... þetta er ég.

En ég er ekkert miðaldra?????? Spegillinn hlýtur að vera að misskilja eitthvað?

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir. Fullorðinn einstaklingur á einhverfurófi.