Hreiðar Þór Ørsted Blogg

Hæ.

 Ég er einhverfur.

Fáir sem ekki hafa einhverfan einstakling í sínu lífi vita hvað það í rauninni er eða hafa heyrt eitthvað um það. Sem er hugsanlega bara eðlilegt en getur búið til staðalímynd sem er ekki bara röng heldur getur einnig verið skaðleg, hindrandi og jafnvel meiðandi fyrir einhverfa einstaklinga 

So here we go. 

Mjög margir halda að einhverfa sé eingöngu það sem var sett upp í bíómyndinni Rain man.

  Ekkert er fjarri sanni.

  Vissulega var sá aðili sem Rain man er byggður á einhverfur en það var bara hluti af hans ástandi. Einhverfan var lítill hluti af mörgu sem gerði eina mjög svo hamlandi heild sem sá góði maður lifði með.

En það er vel skiljanlegt að fáir viti hvað það raunverulega er að lifa með einhverfu. Af hverju ættuð þið sem eruð ekki einhverf eða hafið ekki einhverfan einstakling í ykkar lífi að sækja ykkur upplýsingar um eitthvað sem er ekki hluti af ykkar lífi?

En ef þið þekkið einhvern sem lifir með einhverfu þá getur það skipt sköpum fyrir þann aðila að þið vitið hvað það er eða kynnið ykkur það að einhverju leyti vegna þess að einhverfur einstaklingur á mjög erfitt með að setja það sjálfur í orð þó svo að langi mikið til þess.

Vegna þess að sú sýn sem meirihluti almennings hefur á einhverfu er oft mjög villandi og í raun langt frá þeim raunveruleika sem mörg ef ekki flest okkar sem erum einhverf lifum í.

  Einhverfa er oft það sem við getum kallað „það ósýnilega“

  Margir ef ekki flestir hafa þá hugmynd að einhverfur einstaklingur hljóti að hafa augljós líkamleg einkenni/hegðun sem skeri sig út og geri fólki kleyft að „sjá“ einhverfuna.

  Þetta á við í mörgum tilfellum en alls ekki öllum.

  Einhverfa er í mörgum tilfellum:

 Önnur skynjun.

 Annar skilningur.

  [Mis]túlkun/upplifun á félagslegu samspili.  

Margir einhverfir einstaklingar eru félagsverur sem langar og jafnvel þrá að verða virk félagslega og í samfélaginu í heild. Þrá að ná, hafa og viðhalda góðum og nánum félagslegum tengslum og samskiptum við fólkið í kringum sig en á  í mörgum tilvikum erfitt með að ná þessum tengslum sem virðist vera meðfæddur eiginleiki hjá flestum.

Mörg okkar sem lifa með mismunandi form af einhverfu gætum átt erfitt með að sjá, átta okkur á, og eða skilja þessi ósýnilegu félagslegu samskipti og samspil sem felast í ósögðum orðum, svipbrigðum, málrómi og líkamstjáningu. Og missum hreinlega af stórum hluta samskiptanna.

  Þ.e. félagslegu hliðinni.

Það væri jafnvel hægt að segja að í mörgum ef ekki flestum tilvikum gæti einhverfur einstaklingur verið á staðnum, horft á, séð og heyrt en bara upplifað lítinn hluta af samskiptunum.

Einhverfir einstaklingar gætu átt erfitt með að átta sig á þegar er sagt eitt og meint annað og það getur valdið árekstrum vegna hreins félagslegs misskilnings. Mál og talskilningur er í mörgum tilfellum bókstaflegur og þess vegna erfitt að átta sig þegar er verið að fíflast, gefa „hint“ eða að átta sig á kaldhæðni o.þ.h.

Af þessum orsökum geta viðbrögð einhverfs einstaklings eða jafnvel skortur á viðbrögðum virkað sem furðulegt, harkalegt eða dónalegt og jafnvel virst sem viljaverk. Sem það er oftast ekki, ef þá nokkurn tíma.

Einhverfur einstaklingur gæti átt það til að skilja ekki af hverju hann eða hún fær svo neikvæð viðbrögð.  

Oft áttar hann/hún sig ekki á því að það sem var sagt gæti verið særandi eða móðgandi vegna þess að það var alls ekki tilgangurinn með orðunum og þá skilst oft ekki hvernig er hægt að stilla því einhvernveginn upp að sé neikvætt.

Það væri þá vegna þess að ef það sem var sagt yrði sett upp án „social“ áhrifa (bara sögð orð) þá væru viðbrögð einhverfa einstaklingsins hugsanlega fullkomnlega eðlileg í samræmi við það. 

En ef viðbrögðin væru sett saman við félagslegan skilning myndi það hugsanlega virka, tja WEIRD vegna þess að félagslegi hlutinn af samskiptunum var „ekki með“ í þeim viðbrögðum.

Má jafnvel segja að mörg okkar séu mjög félagslega „nærsýn“. Eitthvað þannig. Ég veit að ég er það. Búið að gera mér grein fyrir því sko. 

Hættur að þræta fyrir það.

Ykkur er óhætt að trúa að ég hef gert minn skerf af mistökum í hvort sem er félagslegum, persónulegum eða faglegum aðstæðum.

Sum brosleg, jafnvel hilarius en oftar hefur það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir mig persónulega og oftast hef ég ekki gert mér grein fyrir þeim fyrr en eftir langan tíma og stundum eingöngu árum seinna þegar mér er sagt frá því.  

En ekki í neinum af þessum tilfellum hefur það verið með vitund eða vilja.

Því get ég lofað og svarið fyrir. 

Einhverfir einstaklingar eru flestir frábærar, góðar og yndislegar mannverur. Mörg okkar eru með mjög góða greind og mörg okkar ekki. Enda erum við bara manneskjur og fjölbreytileikinn samkvæmt því.

Flest okkar höfum við ríka réttlætiskennd, öfluga samúðar og samkennd og mikinn vilja til að hjálpa þeim sem minna mega sín og þurfa á því að halda.

Meirihluti einhverfra einstaklinga eru gríðarlega trygglyndir, góðir og traustir vinir sem bæði reyna og vilja  vera til staðar þegar þörf er á. 

Alveg einsog þú.

Einhverfur einstaklingur er: 

Faðir.

 Móðir.

 Afi.

 Amma.

 Dóttir.

 Sonur.

 Vinur.

 Frændi.

 Frænka. 

mannvera með tilfinningar, væntingar, vonir og þrár.

Alveg einsog þú.

Mig langar að skilja þig og hvernig þú gætir verið  frábrugðin mér. 

Langar þig að skilja mig og hvernig ég er hugsanlega frábrugðin Þér?

Ég vona það.

Hvað er meira spennandi en að kynnast annarri veröld?

Annari skynjun. 

Nýrri vídd.  

Öðrum heimi. 

Vona ég að þú sem lest þetta, hvort sem þekkir einhverfan einstakling eða ekki kynnir þér málið.

Engin ætlast til að þú skiljir.

Bara það að vita að þú sért að reyna og langir að skilja er oftast nóg. 

Hægt að nálgast helstu upplýsingar og greinar um einhverfu á þessum síðum.

http://einhverfa.is/

http://www.greining.is/

Það þarf að upplýsa. Það þarf að segja frá. Það þarf að auka vitund. Það þarf að gera okkur „sýnileg“.

Og það munum við gera. 

 Hreiðar Þór Ørsted.

 

Einhverfurófið.

 Hérna ætla ég reyna að skrifa á sem einfaldasta hátt sem jafnvel börnin okkar gætu kannski skilið, um það hvernig hugur og tilfinningar gæti virkað hjá einstaklingum á einhverfurófi. Í þeirri von að með því gætu einhver ykkar sett ykkar „function" á blað á svipaðan hátt fyrir þann einhverfa í ykkar lífi. Einhverskonar spegilmynd af því.

Og með því vonandi aukið skilning þeirra sem eru á einhverfurófi á því hvernig hugur og tilfinningar virka hjá ykkur sem ekki lifið með einhverfu. svo við gætum betur skilið hvort annað og lært að aðlaga okkur að hvort öðru.

Þetta er auðvitað ekki algilt en vona að þetta geri einhverjum gagn. Hvort sem ert einhverfur eða ekki.

Til að byrja með vil ég taka fram að einhverfa/einhverfuróf er ekki „hvað" við erum heldur „hver" við erum.

Er mjög mikilvægt að átta sig á þessu, samþykkja og taka í sátt ef á að ná einhverskonar „contact" eða nánd við þá sem lifa með einhverfu.

 So here we go again.

Það að vera einstaklingur á rófi einhverfu er einsog að einhver fæðist sem hvítur, indíáni, kínverji, maður eða kona. Það er einsog þeir fæðast og geta ekki verið öðruvísi. Alveg einsog allir aðrir.

En hvað er það að vera á einhverfurófi?

Það þýðir t.d. að hugsa öðruvísi um hlutina og bregðast öðruvísi við tilfinningum og áreiti umhverfisins.

Einstaklingur á einhverfurófi getur verið mjög nákvæmur í því sem þú segir og gerir, og skilur kannski oft ekki af hverju aðrir eru það ekki líka.

Ef einhver segir að hann eða hún ætli að koma eftir svona 10 mínútur þá er vel hugsanlegt að sá sem er fæddur á einhverfurófinu búist þá við að hann komi eftir 10 mínútur, en ekki 11 eða 8 mínútur. Og gæti átt erfitt með að skilja af hverju er ekki hægt að koma eftir 10 mínútur ef það var sagt.

Eins er líklegt að sé líka mjög nákvæmur þegar hlustar á þig. Ef þú segir t.d. að þér hafi þótt ágætt í bíó og segir svo við einhvern annan að þetta hafi nú ekki verið svo skemmtileg mynd. þá skilst hugsanlega ekki hvað þú meinar, annað hvort fannst þér hún skemmtileg eða leiðinleg, hvort er það?

Einhverfur einstaklingur gæti líka orðið ringlaður ef þú segir t.d. einn daginn að þér finnist gaman að spila en ekki næsta dag. Það gæti oft verið að sé ekki nóg að segja „nei mér finnst ekki gaman að spila", heldur gætir þú þurft að skýra það út af hverju þig langar ekki að spila í dag en fannst það gaman í gær.

Líkur eru á að bregðist líka öðruvísi við tilfinningum og svipbrigðum en þú.

Kannastu við þegar einhver brosir til þín þá brosir þú ósjálfrátt til baka?

Eða ef einhver hefur meitt sig þá finnur þú til með honum?

Þetta allt gerist að sjálfu sér hjá þér, þú þarft ekki að hugsa um það heldur eru þetta ósjálfráð viðbrögð í líkama þínum og gera ykkur að félagsverum.

En hjá mörgum sem fæðast á rófi einhverfu gerist þetta ekki svona.

Það gerist ekki að sjálfu sér og þá finnst fólki og þér kannski líka hún eða hann vera fúll, kaldur eða reiður.

Einhverfir eru miklar tilfinningaverur og hafa mikla samúð í sér en gætu haft litla „tilfinningu" fyrir svipbrigðum, líkamstjáningu og áherslum í tali og skilja ekki alltaf hvernig þér eða öðrum líður einsog hvort þú ert sorgmædd/ur, leið/ur eða eitthvað annað.

Rödd gæti oft verið eins.

Margir sem eru á einhverfurófi breyta ekki yfir í ljúfa rödd eða stranga rödd, hún er oftast eins.

Og þá gætir þú kannski túlkað að sé kaldur eða jafnvel reiður, en oftast er það alls ekki þannig. Margir á einhverfurófinu hafa ekki tilfinningu fyrir því hvenær eiga að nota ljúfa rödd og hvenær ekki eða yfirleitt hvort rödd þeirra sé hvöss eða ekki.

Það er eitthvað sem þarf að læra.

Annað sem þú gætir kannski tekið eftir í fari þeirra sem eru á einhverfurófi er að þau horfa sjaldan í augun á þér þegar tala við þig og brosa ekki endilega til þín þegar þú brosir til þeirra.

Þetta er hluti af því að vera á einhverfurófi.

Veit ekki af hverju.

Það er bara þannig.

Þú gætir haldið að einstaklingur á rófi einhverfu hafi ekki áhuga á því sem þú ert að segja af því að fylgist ekki með þér af áhuga á svipinn heldur er frekar" venjulegur" í framan þegar þú ert að tala við hann eða hana. Það er líka algengt hjá þeim sem fæðast á einhverfurófi.

Fólk á einhverfurófi gæti virst kuldalegt og áhugalaust af því það leitar ekki eftir snertingu hjá þér eða reynir kannski ekki að hugga þig með ljúfri röddu.

Leið margra þeirra sem lifa með einhverfu er að spyrja þig spurninga og reyna að finna lausn sem gæti látið þér líða vel eða betur frekar enn að hugga þig. Og fyrir flesta þeirra þá skiptir það MJÖG miklu máli að „ná árangri". Sem að að geta látið þér líða betur. Það er gott að hjálpa.

Hann eða hún gæti líka verið með svör við svo mörgu og séð hlutina rökrétt, og stundum ekki skilið af hverju þú getur ekki séð hlutina þannig, það er af því að við áttum okkur oft ekki á því að þú sérð hlutina öðruvísi og höldum að sé bara ein leið oft á tíðum.

Mjög líklegt er að fólk á einhverfurófi skilji ekki þegar þú segir eitt og meinar annað.

Ef einhver sem fæðist á einhverfurófi spyr þig hvort þér líði ekki vel og þú segir „jú jú" en líður samt illa þá dettur honum ekki í hug að efast um orð þín. Þú sagðir að þér liði vel og af hverju ættir þú að vera að ljúga því og hugsar, [ég] er vinur þinn og þú átt að geta sagt mér allt og satt.

Fólk á einhverfurófi fattar oft ekki að þú vilt kannski ekki særa það með því að segja sannleikann. Fyrir marga á einhverfurófi er sannleikurinn bara það sem „er" = staðreyndir.

Það skilst oft ekki hvernig það getur verið „ekki sannleikur".

Eitt dæmi er að ert spurður einfaldrar spurningar og þá svarar maður því og spáir ekki í hvað aðrir halda, er bara til eitt svar: sannleikurinn.

Þetta kallast að vera bókstaflegur, sem er algengt hjá þeim sem fæðast á rófi einhverfu.

Annað dæmi um að vera bókstaflegur er ef einhver spyr einhvern á einhverfurófi „viltu halda hurðinni fyrir mig?" þá gæti komið þessi hugsun „nei langar það ekkert sérstaklega mikið" og gerir það þá ekki og skilur svo ekkert í því að aðrir verða sárir eða reiðir (brjálast) yfir því að hann eða hún vilji ekki halda hurðinni. „Viltu" er bókstaflegt fyrir mörg okkar, annað hvort viltu eða ekki og þá er verið að leyfa að velja og það sem er valið er þá bara allt í lagi.

En í raun og veru er ekki verið að spyrja hvort maður vilji eða ekki, heldur er það kurteisi að spyrja frekar en að skipa fólki fyrir.

Algengt er að fólk á einhverfurófi fattar ekki hvernig orð geta sært.

Staðreynd er staðreynd og þá er óþarfi að vera reiður, leiður eða sár yfir þeim. [Ég] bjó ekki til sannleikann/staðreyndina.

Þú gætir til dæmis fengið spurningar um hluti sem þér finnist skrýtnir, og hann/hún verið mjög hreinskilin. Til að taka dæmi skulum við segja að sé sagt „rosalega ertu með stórt nef" og fattar ekki að það gæti sært þig af því að þú ert bara með stórt nef, stórt nef er bara það að sumir eru með minna nef.

Margir á einhverfurófi gætu líka sagt að værir ekki góður/góð í einhverju, og fatta ekki að það særir. En það sama fólk myndi líka alltaf segja þér ef þú værir góður/góð í einhverju. En alveg einsog með hitt, fatta ekki að það væri þá hrós vegna þess að þú værir þá góður/góð í því = Staðreynd .

Þeir sem eru á einhverfurófinu gætu líka verið „þreytandi" því [við] gæti fengið hluti á heilann og viljað tala um þá endalaust, hreinlega „blaðrað útí eitt". :)

Mörg okkar viljum við líka að allt sé á sínum stað og gætum pirrast pínu og orðið óörugg/óróleg þegar hlutirnir eru ekki í réttri röð.

Að vilja hafa daglega hluti alltaf eins er algengt, einsog kvöldmat eða háttatíma, ef eitthvað fer úrskeiðis eða óvæntir hlutir koma upp þá líður okkur stundum illa.

Einhverfur einstaklingur gæti líka virst áhugalaus um þig því honum finnst allt í lagi að vera einn og í lagi að viljir ekki koma með sér eða gera eitthvað og áttar sig ekki á því að þér gæti fundist skrýtið að finnist í lagi, og stundum betra að vera einn.

Þú gætir hugsað „nú henni/honum er alveg sama um mig" en oftast er það alls ekki rétt.

Mörgum okkar líður oft vel einum og finnst þá eðlilegt að öðrum líði þá líka vel að vera einir.

 (séu eins)

Hreiðar þór Örsted.

 

 Þjáning

Oft sé ég í fjölmiðlum og á öðrum opinberum vettvangi talað um að fólk þjáist af einhverfu. Eflaust er það rétt að einhverfu fylgja stundum vissar þjáningar, bæði fyrir þann einhverfa sjálfan og aðstandendur, við skulum ekki gera lítið úr þeirri staðreynd.

Einhverstaðar frá hafa fjölmiðlar tekið upp og tileinkað sér þessa "lífsmynd" einhverfra. En það er annað mál.

En hvað er það sem veldur þjáningunni? 

Hvað ef ein einhverf manneskja fengi allt sem gæti þurft til að lifa góðu lífi á sínum forsendum, alla þá þjónustu og aðstoð sem gæti þurft á að halda, væri þá hægt að segja að þjáðist af einhverfu?

Væri hann/hún þá líklegast ekki bara hamingjusöm manneskja sem hugsanlega gæti lagt mikið af mörkum til samfélagsins?

Margir hafa sett þau rök að það „verði að huga að kostaðinum", Ok. Gerum það í smástund.

Væru ekki líkur á að sá kostnaður fengist margfalt til baka inní þjóðfélagið í gegnum öflugan, virkann og sjálfstæðan einstakling? 

Ein hugleiðing er á þann veg að þarfir útfrá öðrum en almennum forsendum geta bara valdið þjáningu ef þær eru ekki viðurkenndar og þeim ekki mætt af þeim aðilum sem hafa með það að gera í kerfinu eins og það er sett upp. Auðvitað er mikið af velviljuðu fólki sem hrærist um í kerfinu og vill hjálpa en, hefur ekki "tækin" til þess. Eins væri hægt að segja að skortur á fjármagni væri orsök þjáninga þeirra sem þurfa á aðstoð að halda en er neitað um hana, eða hvað?.

En hvernig skilgreinum við þjáningu? 

Væri hægt að segja að ríkið sjálft sé orsakavaldur þjáninga með því að taka ekki á málunum á þann hátt sem þurfa þykir? Eða er nóg að segja að ekki sé til fjármagn og málið dautt? Væri þá hægt halda því fram að peningastefnan sé orsök þjáningar þeirra sem þurfa á aðstoð að halda en fá ekki sökum fjárskorts? 

Er það raunverulegur möguleiki að kerfi sem skilur ekki, viðurkennir ekki og er þar af leiðandi ekki tilbúið að gera það sem þarf, sé hluti af orsökinni?

Í mínum huga minnka þjáningar með aukinni þjónustu, þ.e. að sú aðstoð sem þarf sé í boði fyrir þá sem það þurfa.Og alltaf snýst það um fjármagn eða skorti á því. 

Þjáning er oft afleiðing af skorti, sama í hvaða formi sá skortur er. Er hægt að segja að skortur á skilningi, þjónustu og þekkingu á málefninu í stjórnkerfinu í heild sé megin ástæða þess að hægt er að segja að fólk þjáist af einhverfu?

Hvað er þjáning?

Þjáning getur verið líkamleg eða andleg og oft fer þetta tvennt saman. En það sem veldur þjáningu eru oft aðstæður, hvort sem þú dettur, einhver særir þig eða það sem tengist því sem er að tala um hér að einhverjum er hafnað, neitað um það sem gæti þurft til að uppfylla grunnþarfir þess einstaklings af þeim sem hafa tök á að hjálpa, sem í þessu tilviki væri þá félagslega kerfið. Sem er fullt af góðum vilja en því miður er það ekki alltaf nóg..

Væri þá á sama hátt hægt að halda því fram að þetta sama kerfi þjáist líka? Þ.e. af fjárskorti til að geta veitt þá aðstoð sem þarf. Að kerfið sjálft þjáist vegna þess að úthlutað fjármagn í fjárlögum dugar ekki til að veita þeim aðstoð sem þurfa. Er þá sanngjarnt að segja að Þeir sem hafa með peningastefnuna að gera séu beinn orsakavaldur?

Eða er einhverfa í sjálfri sér þjáning burtséð frá þjónustu, eða skorti á þjónustu?

Oft virðist sem fjölmiðlar og aðrir sem gefa sig út fyrir að tala máli einhverfra, álykti að það eitt að vera á einhverfurófi hljóti sjálfkrafa að leiða til þjáningar einstaklingsins. Væru einhverfir sjálfir spurðir álits eru líkur á að þeir hefðu aðra sögu að segja. Að einhverfa beri ekki með sér óhjákvæmilega þjáningu, heldur viðbrögð og meðhöndlun umhverfisins á hinum einhverfa. Fáir hafa spurt.

Viðhorf fjölmiðla og yfirgnæfandi hluta almennings, þ.e það að einstaklingar hljóti að þjást vegna einhverfu frekar en að lifa í einhverfri veröld, er nefnilega stór hluti vandans. Litið er á einhverfa sem minnimáttar, ósjálfbjarga og öðruvísi í stað þess að leitast við að gera að virkum þátttakendum í umfjölluninni, draga fram styrkleika þeirra og gera þeim kleift að gerast virkir þegnar í þjóðfélaginu.

Oft eru það viðhorfin  gagnvart annarskonar lífsforsendum sem skapar raunveruleika þeirra sem þar lifa.

Viðhorfið eitt getur skipt sköpum um gott líf á góðum forsendum eða líf erfiðleika, vonleysis og endalausrar baráttu fyrir sjálfum sér.. 

Hreiðar þór Örsted

  

Kröfur

Að gera kröfu um að einhverft fólk „hætti“ að vera einhverft er svipað og að segja einhverjum örvhentum að skrifa með hægri 200.000 orða ritgerð afturábak á kínversku um gríska goðafræði séð útfrá frumbyggjum Ástralíu á 17.öld byggða á hugmyndafræði Maya indíana ef þeir hefðu verið undir vestrænum áhrifum og gildum einsog þau er skilgreind í dag séð með augum múslima. Getur þú verið einhverf/ur í tvo daga?

Auðvitað ekki.

Ekkert frekar en einhverfir gætu allt í einu orðið „ekki einhverf/ur“.

Það er ekki hægt að „kenna“ einhverjum að hætta að vera einhverfur frekar en ég gæti kennt þér að vera einhverfur. Einhverfa er góð, hún er meira að segja oft frábær, en hún sem skilgreining verður hræðileg um leið og samfélagið hafnar henni og berst á móti henni.

 Sérstaklega þegar mamma, pabbi og þeir sem litið er upp til gera það.

Það er meira en vont.

 Verst er þegar reynt er að „eyða“ einhverfu, og oftast er það réttlætt með því að verið sé að hjálpa „þeim“.

Það þýðir að einhverfur er ekki nógu góður einsog hann/hún er. Og það er ekki hægt að vera annað svo einhverfir hafa lítið val annað en að „loka á“. Þegar það hefur gerst er erfitt að opna aftur.

Ekki týna börnunum, systkynum, frændum og frænkum ykkar í ykkar eigin væntingum um hvað „á að vera“.

 Fagnið því sem er.

 Taktu frá eina mínútu og horfðu. En ekki bara horfa.

SJÁÐU.

Sjáðu hvað þú hefur í raun fallega sál og mannveru beint fyrir framan þig. :)

 Það er ekki hægt að hjálpa með því að byrja á því að eyða manneskjunni, eyðileggja líf.

Einhverfi sonurinn, dóttirin, bróðir eða systir er ekki klíniskt vandamál. Það er kerfislæg uppfinning og lært hugarfar sem hefur ekkert að gera með mannlegt eðli. Sú uppfinning og það hugarfar eyðileggur sál.

Horfið og sjáið hvað einhverfir eru frábærir einstaklingar, góðir og umhyggjusamir, traustir og sjáið hvað þeir elska ykkur mikið. Þeir taka ykkur skilyrðislaust einsog þið eruð þó svo þið séuð alveg jafn öðruvísi og einhverfur er öðruvísi en þú.

Just do the same.

It‘s really really easy.

It‘s a simple choice you make.

Að reyna að breyta er alls ekki það sama og að reyna að hjálpa. Á því er mikill munur.

Að reyna að breyta [eyða einhverfunni] einhverfri manneskju er að búa til þeirra eigið persónulega helvíti inní sjálfum sér.

Að reyna að gera forced behavioural modifacation er að búa til fangelsi innan honum/henni sjálfum vegna þess að þessi sama mannvera kemur til með að upplifa sig sem vonbrigði allt sitt líf, vegna þess að hann eða hún getur ekki uppfyllt þær kröfur sem hans nánustu gera til hans. Kröfur sem hver einasta fruma líkamans langar að geta staðið undir. En veit samt að getur það aldrei.

Ekki gera kröfur sem treystið ykkur ekki til að uppfylla sjálf. Thats the key.

Ekki týna okkur.

Vegna þess, og ég fullyrði það að einhverfir upp til hópa langar ofboðslega mikið að gera ykkur til geðs og bara það að reyna getur skemmt sálina vegna þess að það er dæmt til ævilangra raða af „ég er ekki nóg“.

Það sem þið gerið kröfur um can‘t be done.

Einhverfir vilja ekki að þið breytið ykkur í einhverfa, þið eruð frábær alveg einsog þið eruð.

Alveg einsog einhverfir.

Af hverju sjáið þið það ekki?

Þetta er beint fyrir framan ykkur.

Það eina sem þarft að gera er að = Sjá

 Hreiðar Þór Ørsted.

 

Hreiðar Þór Ørsted.

 

Ég heiti Hreiðar.

 Ég er á einhverfurófi.

 En ég er fyrst og fremst venjuleg manneskja.

 Alveg einsog þú.

 Ég hef tilfinningar þó þú sjáir það ekki alltaf.

 Alveg einsog þú.

 Mér finnst gaman að hlægja.

 Alveg einsog þú.

 Ég verð stundum dapur og græt.

 Alveg einsog þú.

 Ég elska.

 Alveg einsog þú.

 Ég hef mikla samúð og samkennd.

 Alveg einsog þú.

 En ég get ekki haft samkennd með einhverju sem ég skil ekki.

 Alveg einsog þú. 

Mig langar að hjálpa fólki og hugga það. 

Alveg einsg þú. 

Ég bara veit ekki alltaf þegar á að gera það.

Vegna þess að engin segir mér það sem þú veist, sérð og skilur án þess að sé sagt. 

Ef ég skildi eða vissi þá myndi ég gera þetta allt. 

Alveg einsog þú. 

Ég er góður.

 Alveg einsog þú.

 Ég er.

Alveg einsog þú.