Marglitur Mars - listsýning í Hamrinum í Hafnarfirði

Listsýning Einhverfusamtakanna dagana 13. – 14. apríl 2024
Yfirskrift sýningar er Marglitur mars og er þessi viðburður haldinn nú þriðja árið í röð.
Móttökur hafa verið frábærar en hugmyndin á bak við verkefnið byggir á fjölbreytileika einhverfurófsins og þeirri margbreytilegu listsköpun og frumleika sem þar er að finna. Í forgrunni er fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi og verður verkum þeirra leyft að tala.
Opnunartími báða dagana er kl. 12-16.
 
Sýnd verður myndlist, tölvugrafík, liftimyndabók, innsetning, handavinna ofl. Einnig verður tónlistarflutningur og ljóðalestur.
 
Lesið verður upp úr bókinni "Öðruvísi, ekki síðri" eftir Chloé Hayden sem kemur nú út í íslenskri þýðingu í byrjun apríl. Chloé lýsir bókinni sinni sem því sem hún, þá 13 ára gömul, hefði þurft að fá í hendurnar til að skilja líf sitt og hvað það þýðir að vera einhverf. Er það almennt mat einhverfra sem lesa bókina að þessi lýsing standi undir nafni. Bókin er skýr og skorinorð, skemmtilega skrifuð, og síðast en ekki síst gríðarlega góð handbók um flest ef ekki allt sem snýr að einhverfu.