Það var gífurlega mikilvægt fyrir mig að læra að heilastarfsemi mín, skynjun og upplifun er ekki eins og gengur og gerist hjá flestum. Þegar ég áttaði mig á því og fékk það síðan staðfest tók líf mitt nýja stefnu. Ég dæmi sjálfa mig ekki eins hart fyrir mistök og fattleysi í mannlegum samskiptum, líkt og ég hafði gert áður. Nú hugsa ég ekki lengur um sjálfa mig sem misheppnaðan aumingja, þroskahefta í félagslegum samskiptum sem klúðrar alltaf öllu.
Það er komin skýring á því hvers vegna mér hefur gengið svona illa í samskiptum við annað fólk og ekki getað eignast vini á “eðlilegan” hátt líkt og flestir gera. Þ.e.a.s. að spila eftir alls konar óskrifuðum reglum, vita strax hvað fólk meinar með augnaráði, svipbrigðum, líkamsbeitingu og raddblæ. Vita alltaf hvenær fólk er að grínast og hvenær það segir satt, lesa á milli línanna þegar fólk segir eitt en er að meina annað, gefa í skyn að það ætlast til einhvers af mér. Þessir hlutir eru ekki sjálfsagðir fyrir mér. Þó svo að ég sé búin að læra alveg helling, þá verð ég aldrei fullnuma í óskrifuðum reglum vegna þess að menningin breytist stöðugt. Óskrifuðu reglurnar eru líka sveigjanlegar eftir aðstæðum sem gera hlutina heldur ekki auðvelda fyrir manneskju með heila eins og ég.
Mér þykir það leiðinlegt að ég þurfi að hafa fyrir því að setja mig í spor annarra. Ég þarf að gera það meðvitað og það er orkufrekt. Alltof margir skilja það ekki, eða nenna ekki að reyna að skilja það.
Það er kolrangt ef fólk heldur að mér sé sama um tilfinningar annarra. Ég hef mjööög mikinn áhuga á að vita hvernig öðru fólki líður, en ég á oft erfitt með að sjá hluti út fyrir mína sjálfhverfu, sérstaklega ef umræðuefnið er persónulegt tilfinningamál fyrir mig. Mig langar ekki að neitt sem ég segi eða geri láti öðrum líða illa og ef svoleiðis gerist þá er það í langflestum tilvikum gert óafvitandi.
Nú þegar ég hef opinberað einhverfuröskun mína tilheyri ég jaðarhópi sem ég óttast að sé ýtt til hliðar af samfélaginu vegna skilningsleysis. Fyrir mig og aðra í sömu sporum og ég þykir mér gríðarlega mikilvægt að fræða íslenskan almenning um okkur fólkið sem erum með dálítið öðruvísi týpu af heila en flestir, en erum þó alls ekkert síðri en þeir sem hafa svokallaðan “neuro-typical” heila, eða heila “án taugafræðilegra frávika”.
Mamiko Dís Ragnarsdóttir