Eru viðhorf vegartálmi? - málþing um stúlkur og konur á einhverfurófi

Upptökur frá málþingi sem haldið var 25. október 2018 í tengslum við heimildarmyndina ,,Að sjá hið ósýnilega “ 

Myndböndin með enskum texta: POP-UP Autism Forum
 
Laufey Gunnarsdóttir - Kona „skreppur“ ekki í greiningu
Laufey Gunnarsdóttir er þroskaþjálfi og einhverfuráðgjafi. Hún hefur sérhæft sig í að meta einhverfueinkenni hjá fólki, veita ráðgjöf og fræða. Laufey hefur gegnum tíðina beint sjónum sínum að stúlkum og konum. Hún er ein fárra hér á landi sem hægt er að leita til þegar fólk óskar eftir því að komast í greiningarferli og hefur haldið utan um hóp kvenna á einhverfurófi sem hittast reglulega. Hún er ein sex kvenna sem ýttu átakinu „að sjá hið ósýnilega" úr vör og situr í ritstjórn verkefnisins. Hún veit að kona „skreppur” ekki í greiningu. Það hefur gengið á ýmsu áður en konur öðlast kjark og þor til að hafa samband við hana.
 
Þóra Leósdóttir - Að sjá hið ósýnilega
Þóra Leósdóttir er ein sex kvenna sem ýttu átakinu „að sjá hið ósýnilega" úr vör og situr í ritstjórn verkefnisins. Hún er iðjuþjálfi og hefur starfað með einhverfum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra síðustu tvo áratugi. Þóra miðlar af mikilli reynslu og ástríðu um málefni kvenna á einhverfurófi. Hún spyr, „Hvar eru stelpurnar?“ „Eru þær bara að plumma sig ágætlega?" „Fá þær aðrar greiningar?“ „Eru þær ósýnilegar?" Þetta eru einmitt spurningar sem leitað er svara við í heimildarmyndinni „Að sjá hið ósýnilega". 
 
Sigrún Birgisdóttir - Hvar er þjónustan?
Sigrún Birgisdóttir er framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna og hefur í mörg ár sinnt hagsmunagæslu og starfi samtakanna. Sjálf er hún aðstandandi. Sigrún og stjórn Einhverfusamtakanna eiga heiður skilið fyrir að setja loksins þetta málefni á dagskrá og koma af stað vitundarvakningu um okkar konur. Úrræðin eru brotakennd og af skornum skammti, eins og staðan er í dag. Þó eru ýmis samtök sem hafa unnið gríðarlega mikilvægt starf til að styðja við okkar skjólstæðinga - en það þarf að gera betur. Við viljum sjá þekkingarmiðstöð fyrir fólk á einhverfurófi, þar sem veitt er þjónusta fyrir alla aldurshópa.
 
Sunna Sigfúsdóttir - Geimvera á vinnumarkaði 
Sunna Sigfúsdóttir er ein þeirra 17 kvenna sem segja sögu sína í heimildarmyndinni „Að sjá hið ósýnilega“. Hún hélt erindi á málþinginu þar sem hún rakti sögu sína. Þar kom meðal annars fram að hún skrifaði bók um hrakfallasögu sína á vinnumarkað. Helga vinkona hennar las bókina og komst hún að þeirri niðurstöðu að Sunna væri mögulega á einhverfurófi. Helga ákvað að deila þeirri hugmynd með henni og það átti eftir að breyta lífi Sunnu.
 
Jóhanna Stefánsdóttir - Farsæl heimavinnandi húsmóðir
Jóhanna Stefánsdóttir er ein þeirra 17 kvenna sem segja sögu sína í heimildarmyndinni „Að sjá hið ósýnilega“. Hún hélt erindi á málþinginu þar sem hún rakti sögu sína. Þar kom meðal annars fram að hún leitaði oft til geðlæknisins síns til að fá hjálp við vanlíðan sinni. Eitt sinn hafði læknirinn á orði: „Ég hélt að þú værir farsæl heimavinnandi húsmóðir“
 
Valrós Gígja - „Getting to know the autistic me"
Valrós Gígja er ein þeirra 17 kvenna sem segja sögu sína í heimildarmyndinni „Að sjá hið ósýnilega“. Hún hélt erindi á málþinginu þar sem hún útskýrði hvernig henni leið alltaf verr og verr í skólanum. Lítil sem engin áhersla var lögð á styrkleika hennar á sviði listsköpunar og teikningar. Í staðinn var hún sífellt látin gera verkefni sem voru henni erfið og kvíðinn jókst - skólinn gerði hana veika. Það var ekki fyrr en hún komst í Janus starfsendurhæfingu að málin fóru að þróast á betri veg.
 
Guðlaug Svala - Af hverju ætti ég að þykjast vera einhverf?
Guðlaug Svala er ein þeirra 17 kvenna sem segja sögu sína í heimildarmyndinni „Að sjá hið ósýnilega“. Hún hélt erindi á málþinginu þar sem hún ræddi meðal annars um að "það sem er sagt við mann er ekki endilega það sem sagt er um mann." Það eru til staðar fordómar og þekkingarleysi gagnvart fólki sem er á vægari enda einhverfurófsins. Það er gert lítið úr einkennum þeirra og þau eru ekki talin passa við einhverfu. Af þessum sökum eru til dæmis einhverfar konur oft í þeirri stöðu að þurfa að sanna fyrir öðrum að þær séu raunverulega einhverfar.