Lagabreytingartillögur Svavars Kjarrval

Einhverfusamtökin

Lagabreytingartillögur fyrir aðalfund 2020

Tillöguflytjandi: Svavar Kjarrval

 

2. gr. laganna skal orðast svo:

Með einhverfum í lögum þessum er átt við einstaklinga innan einhverfurófsins í víðum skilningi, sem inniheldur meðal annars það sem nefnt hefur verið dæmigerð einhverfa, ódæmigerð einhverfa, og Asperger-heilkennið.

Fyrir aftan 3. mgr. 6. gr. skal bætast við nýr málsliður, svohljóðandi:

Stjórn félagsins skal miða að því að viðeigandi fjöldi einstaklinga innan einhverfurófsins sé í nefndum og starfshópum innan félagsins, sem og aðrir aðilar sem eiga einhverfutengdra hagsmuna að gæta hverju sinni, og slíkt hið sama skal gilda um skipanir og tilnefningar út á við af hálfu félagsins.

Aftan á 6. gr. skulu bætast við tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Við formannskjör skulu frambjóðendur innan einhverfurófsins öðlast forgang fram yfir frambjóðendur sem eru ekki innan þess. Einstaklingur í framboði til formanns getur þó eingöngu hlotið forganginn ef hann hlýtur að lágmarki 20% af öllum greiddum atkvæðum. Í öðrum kosningum aðalmanna í stjórn skulu frambjóðendur innan einhverfurófsins öðlast forgang að því marki að a.m.k. helmingur stjórnar, að formanni meðtöldum, eftir lok aðalfundarins yrði samansett af fólki innan einhverfurófsins. Þegar forgangsreglan á við skal fyrst velja úr hópi þeirra sem rétt eiga á forgangnum samkvæmt atkvæðaröð þeirra þar til lágmarkinu hefur verið náð, og svo skal raðað í þau sæti sem eftir eru samkvæmt atkvæðaröð allra frambjóðenda óháð forgangi.

Frambjóðandi innan einhverfurófsins getur þó einungis öðlast téðan forgang ef hann lýsir því yfir á viðkomandi aðalfundi að hann sé innan einhverfurófsins áður en úrslit talningar liggja fyrir, eða slíkt sé gjört af fulltrúa hans fyrir það tímamark. Ekki þarf að færa sönnur fyrir gildi slíkra yfirlýsinga né skylt að afmarka nánar hvar innan einhverfurófsins frambjóðandinn er.

Við 6. gr. skal bætast við nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

5. og 6. mgr. 6. gr. skulu fyrst koma til framkvæmda á aðalfundi ársins 2021, og skal þá stjórnarfólki í embættissætum sem ekki eru til kjörs það árið, eða fulltrúum þeirra, vera heimilt að gefa út yfirlýsingar skv. 6. mgr. ákvæðisins þrátt fyrir að viðkomandi sé ekki í framboði það skiptið.

Greinargerð

Forsendan fyrir tillögðum breytingum á 2. gr. og 6. gr. eru nauðsynlegar aðlaganir sem flytjandi tillögunnar telur að þurfi að framkvæma til að innleiða hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Þar sem enn er von á lögum um félög til almannaheilla fór ekki fram heildarendurskoðun á lögunum í heild í þetta sinn.

Um tillögu að nýrri 2. gr.

Meginástæðan fyrir breytingunni á 2. gr. laganna er orðalag sem þarfnast uppfærslu í ljósi SRFF. Ekki er talið við hæfi að vísa til raskana þar sem sú orðnotkun er ekki í samræmi við d-lið 3. gr. SRFF um viðurkenningu að fatlað fólk sé hluti af mannlegum margbreytileika og mannkyni. Hugtakið er tilvísun í gamlan læknisfræðilegan skilning í þeirri merkingu að um sé að ræða frávik eða galla, sem tímabært er að fjarlægja úr lögum félagsins.

Horfið er frá því að skýra hugtakið einhverfu sem ástand og yfir í að skýra hvaða einstaklingar teljast einhverfir í skilningi laganna enda eru tilvísanirnar í einstaklingana sjálfa talsvert fleiri í lögunum en tilvísanir í ástandið. Undanfarin ár hefur verið lögð meiri áhersla á að ítreka í hugtakanotkuninni að um sé einstaklinga að ræða, eins og með ‚einhverf kona‘ eða ‚maður með einhverfu‘. Engin skýr niðurstaða hefur komist í þá umræðu hvernig þær tilvísanir ættu að vera, og því er í þetta skiptið látið vera að leggja til eitt tiltekið hugtak. Þegar næg samstaða hefur komist á um þá hugtakanotkun gæti þurft að aðlaga 2. gr. á ný, sé þess talin þörf.

Um tillögu að breytingum á 6. gr.

Tillagðar breytingar á 6. gr. laga félagsins eru tvenns konar, en báðar snúa þær að innleiðingu hugmyndafræði SRFF um þátttöku fatlaðs fólks í starfsemi samtaka fatlaðs fólks, er felst í því að slík samtök ættu að vera skipulögð, leidd og stjórnuð af fötluðu fólki, eins og nánar er lýst í 7. almennu athugasemd eftirlitsnefndarinnar sem starfar á grundvelli SRFF. Athugasemd nefndarinnar kveður einnig á um að fulltrúar slíkra samtaka út á við ætti einnig að vera fatlað, en nefnir þó að réttmæt ástæða gæti verið fyrir því í einstaka tilfellum að velja aðstandenda fatlaðs einstaklings fram yfir fatlaðan einstakling, eða velja einn aðstandanda og einn fatlaðan einstakling sé þess kostur. Í tillögunni er gert ráð fyrir að stjórninni sé eftirlátið að meta þetta í ljósi aðstæðna hverju sinni.

Hinar viðbættu málsgreinar við 6. gr. laganna fela í sér forgangsreglu fólks innan einhverfurófsins í almenn stjórnarsæti og í embætti formanns. Sett er það skilyrði þegar um formannskjör er að ræða að viðkomandi hljóti a.m.k. 20% greiddra atkvæða til að tryggja að tiltekið lágmarkshlutfall félagsmanna sé að baki þess aðila sem gæti hlotið forganginn. Ekki þótti ástæða til þess að leggja til slíkt skilyrði vegna forgangsins í önnur stjórnarsæti.

Lágmarkskvótinn sem mælt er með fyrir stjórnina í heild felur í sér að frambjóðendur innan einhverfurófsins skuli eiga forgang þegar kosið er um aðalmenn í stjórn, að því marki sem nauðsynlegt er að tryggja sem best að a.m.k. helmingur stjórnarinnar (þegar formaður er talinn með) er fólk innan einhverfurófsins. Athuga ætti að hér er í raun verið að vísa í viðmið en ekki fortakslausa reglu um samsetningu stjórnar. Sé fjöldi frambjóðenda innan einhverfurófsins færri en viðmiðið kveður á um, myndi forgangsreglan virkjast fyrir þá frambjóðendur sem öðlast forganginn en að öðru leiti raðast frambjóðendur í sætin með venjulegum hætti.

Vanti eingöngu einn einstakling innan einhverfurófsins í stjórnina til að uppfylla það viðmið og það er kosið um tvö sæti, myndi forgangurinn eingöngu koma til skoðunar ef tveir aðilar utan einhverfurófsins hljóta flest atkvæðin og síðar í atkvæðaröðinni sé einstaklingur innan einhverfurófsins, en þá myndi forgangurinn eingöngu eiga við um einn einstakling innan einhverfurófsins, en ekki alla. Ef staðan hefði verið sú að það hefði vantað tvo einstaklinga innan einhverfurófsins upp að lágmarkinu, myndu tveir atkvæðamestu einstaklingarnar innan einhverfurófsins hljóta forganginn. Reglan kemur ekki í veg fyrir að fleiri einstaklingar innan einhverfurófsins séu kjörnir í stjórn en sem nemur lágmarkinu, eins og þegar tveir atkvæðamestu frambjóðendurnir væru innan einhverfurófsins og þörf væri á einum til að ná lágmarkinu, en í því tilfelli myndu báðir einstaklingarnir innan einhverfurófsins ná kjöri.

Ef stjórnarkosning færi fram með afbrigðum, sem sagt að einhver sé í framboði til aðalmanns til eins árs, þá er gert ráð fyrir að reglurnar um forganginn eigi einnig við um þær kosningar, ef viðmiðinu yrði ekki náð með þeim framboðum í sæti aðalmanns til tveggja ára. Við slíkar aðstæður hefur meginreglan verið sú að kjósa fyrst í þau stjórnarsæti sem séu til tveggja ára, og síðan þau sem eru til eins árs.

Samkvæmt orðalagi ákvæðisins eiga þessar forgangsreglur ekki við um kosningar til varamanna.