Skref fyrir skref - margmiðlunarkennsluefni fyrir foreldra og fagfólk

Á árunum 2011–2013 tók Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þátt í evrópsku samstarfsverkefni sem var styrkt af Leonardo, menntaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið fólst í þýðingu, staðfærslu og frekari þróun á margmiðlunarkennsluefni sem kallast Skref fyrir skref (Simple Steps) og var upphaflega þróað á Norður-Írlandi.

Markmið efnisins er að veita haldgóðar grunnupplýsingar um kennslu sem byggir á hagnýtri atferlisgreiningu.

Kennsluefnið samanstendur meðal annars af myndskeiðum, lesefni, viðtölum, sýnikennslu og útskýringarmyndum þar sem farið er yfir þann grunn í hagnýtri atferlisgreiningu sem nauðsynlegt er að hafa í upphafi íhlutunar.

Efnið er einkum ætlað foreldrum, stuðningsaðilum, kennurum og öðrum sem koma að uppeldi og kennslu barna á einhverfurófinu. Það nýtist þó einnig við kennslu barna sem eru með önnur frávik í þroska og hegðun. Þá hefur það verið notað á námskeiðum í hagnýtri atferlisgreiningu í háskólum og þróaður hefur verið námsvísir (study guide) til þess að nota á námskeiðunum.

Hægt er að kaupa leyfi fyrir aðgangi að Skref fyrir skref á netinu á vægu verði (79 evrur) og veitir það aðgang að efninu á níu tungumálum í ótakmarkaðan tíma.

Frekari upplýsingar má nálgast á vefnum www.simplestepsautism.com.

Skólar og aðrir sem óska eftir að kaupa fimm leyfi eða fleiri geta athugað möguleika á magnafslætti. Beiðnir þar að lútandi svo og aðrar fyrirspurnir sem tengjast kaupum á leyfi skal senda á ensku á netfangið: info@simplestepsautism.com.

Almennum fyrirspurnum um vefinn má beina til Sigríðar Lóu Jónsdóttur, sálfræðings á Ráðgjafar- og greiningarstöðinni, sigridur.l.jonsdottir@greining.is.