Atferlisþjálfun (Hagnýt atferlisgreining)

Atferlisþjálfun er markviss, árangursrík og viðurkennd leið sem hefur verið þróuð til þess að hafa áhrif á hegðun og byggja upp margvíslega færni hjá börnum, m.a. hjá börnum með röskun á einhverfurófi. Atferlisþjálfun byggir á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar (applied behaviour analysis ? ABA). Atferlisgreining er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á lögmálum hegðunar og leggur áherslu á að hagnýta þá þekkingu á ýmsum sviðum mannlífsins, m.a. við kennslu barna með röskun á einhverfurófi.

Markmið og einstaklingsnámskrá

Stefnt er að því að barnið öðlist sem mest sjálfstæði, geti notið hæfileika sinna, átt gefandi samskipti við aðra og lifað sem innihaldsríkustu lífi. Markmið sem unnið er að dags daglega, eru skilgreind fyrir hvert barn í samvinnu við foreldra. Í því skyni er stuðst við námsskrár sem hafa verið þróaðar fyrir einhverfa, horft er til þarfa barnsins með hliðsjón af því sem jafnaldrar eru að gera, einnig er tekið mið af styrkleikum þess, áhugasviði og óskum foreldra.

Hvernig fer atferlisþjálfun fram?

Bein kennsla er yfirleitt notuð til þess að kenna nýja eða flókna færni sem krefst mikillar athygli frá barninu. Sú færni sem á að kenna, eins og t.d. leikur, er brotin niður í lítil skref, sem eru kennd á kerfisbundinn hátt og tengd saman í flóknari athafnir.

Í beinni kennslu eru m.a. notaðar aðgreindar kennsluæfingar sem þjálfarinn stjórnar. Kennarinn eða þjálfarinn byrjar æfinguna á vísbendingu, t.d. með því að sýna barninu mynd, spyrja eða gefa því fyrirmæli. Í byrjun eru fyrirmæli og vísbendingar einföld, en verða sífellt flóknari í takt við framfarir barnsins (Hvar er bangsi? Hvar er guli bangsinn? Hvar er stóri guli bangsinn?).

Beðið er í nokkrar sekúndur eftir svari barnsins og fer framhaldið eftir því hvort að það sé rétt eða rangt. Færni sem á að kenna barninu er skilgreind nákvæmlega og nákvæm viðmið eru sett um það hvað telst vera rétt svar. Þegar barnið hefur svarað bregst þjálfarinn strax við. Ef barnið svarar rétt, þá styrkir þjálfarinn svarið með því að gefa barninu eithvað sem því finnst eftirsóknarvert. Áhersla er lögð á að umbuna eða að styrkja alla viðleitni barnsins til þess að gera það sem til er ætlast.

Ef barnið á í erfiðleikum með að svara er veitt aðstoð, þannig að stýring er notuð í næstu æfingu við að ná réttu svari. Markmið stýringa er að takmarka röng svör hjá barninu og auka líkur á að það svari rétt.  Mikilvægt er að draga kerfisbundið úr stýringum þannig að barnið verði ekki háð þeim. Þessar kennsluæfingar eru endurteknar og mynda svokallaðar æfingalotur.  

Auk þess að fá mörg tækifæri til æfinga í skipulögðum aðstæðum, þar sem aðferðir beinnar kennslu eru notaðar, er einnig lögð áhersla á  svokallaða náttúrulega kennslu og þá eru notaðar þær aðstæður sem barnið er í daglega og aðferðir hagnýtrar atferlisgreiningar eru þá notaðar til að styrkja viðeigandi hegðun.

Texti fenginn af vef Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins: http://www.greining.is/is/fraedsla-og-namskeid/thjalfunar-og-kennsluadferdir/atferlisthjalfun