Einhverfusamtökin fta.

Einhverfusamtökin fta. voru stofnuð árið 1977. Í þeim eru einhverft fólk, foreldrar, aðstandendur, fagfólk og öll þau sem áhuga hafa á málefnum fólks á einhverfurófi (autism spectrum).

Starfsemi samtakanna beinist meðal annars að því að bæta þjónustu við einhverfa, standa vörð um lögbundin réttindi þeirra og stuðla að fræðslu um málefni fólks á einhverfurófi.  Samtökin leggja áherslu á sýnileika með það að markmiði að geta orðið að liði þar sem þörfin á stuðningi og aðstoð er fyrir hendi. Við fylgjumst með setningu laga og reglugerða sem snerta okkar félagsmenn og gefum álit. Einnig fylgjumst við með starfi sveitarfélaga. Aðilar úr okkar röðum hafa setið í stjórnum Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ og reynum við að hafa áhrif þar í gegn. Samtökin eru í samvinnu við ýmis önnur hagsmunafélög til að reyna að hafa jákvæð áhrif á ýmis baráttumál samtakanna. Helstu baráttumál samtakanna hafa verið stytting biðlista eftir greiningu, búsetumál, atvinnumál og skólamál.

Einhverfusamtökin fta. halda úti heimasíðu, www.einhverfa.is og eru með reglulegan opnunartíma á skrifstofu þar sem nálgast má upplýsingar og fræðsluefni. Þar er hlustað og hægt að fá upplýsingar. Einnig er fólki vísað áfram í kerfinu, svo sem til Sjónarhóls, réttindagæslumanna fatlaðra o.s.frv. allt eftir þörfum hvers og eins.

Annar mikilvægur þáttur í starfi Einhverfusamtakanna eru umræðuhópar fyrir einhverft fólk. Við höfum reglulega staðið fyrir ráðstefnum og kynningarfundum. Samtökin fylgjast með því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og eru í virku norrænu samstarfi. Mikilvægt er að einhverfir og aðstandendur standi vörð um réttindi einhverfra og láti til sín taka. Ef þú ert ekki sáttur við þá þjónustu sem þú, barnið þitt eða einhverfur aðstandandi fær, hvetjum við þig til að hafa samband við okkur, hvar sem þú ert á landinu.

 
Merki Einhverfusamtakanna
Merkið var hannað til að vera í senn nútímalegt en um leið laust við allt prjál og tískustrauma þannig að það standist tímanns tönn og nýtist félaginu vel. Einfaldleiki merkisins gerir það að verkum að auðvelt er að færa það yfir á alla miðla hvort sem það er fyrir prent, vef eða t.d. útskornar merkingar.
 
Fagfólk
Ysti hringurinn stendur fyrir það fagfólk sem kemur að úrræðum og hjálp fyrir einstaklinga á einhverfurófinu. 
 
Aðstandendur
Hringurinn þar fyrir innan táknar þá sem standa einhverfum enn nær eða aðstandendur. 
 
Einhverfir
Innst er svo þeir einstaklingar sem eru á einhverfurófinu.
 
Sólarupprás
Í merkinu er sólarupprás. Sólin er tákn fyrir von, bjartsýni og líf og er ætlað að endurspegla starf félagsins. 
 
Greiningarþættir
Hringformin í merkinu eru auk þess tákngervingur fyrir greiningarþætti einhverfu eins og áráttukennda hegðun og félagslega hegðun og tjáningu.
 
Stafurinn e
Útúr merkinu má lesa stafinn „e“. sem stendur fyrir einhverfa og hjálpar til við minni merkisins. 
 
Litapaletta
Litir merkisins eru bjartir og fullir af lífi. Gulur er gjarnan tákn lífs og gleði. Blár er tákn verndar og trausts. Litirnir eru andstæðir litir í litrófinu og verða af þeim sökum sterkari saman.

 

Hönnuður merkis: Jón Ari Helgason.